Skilanefndir þjóðnýttu viðskiptabankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, hafa ráðið bresku endurskoðunarskrifstofuna Deloitte til að annast samskipti við alþjóðlega lánardrottna. Starfsmenn banka og Fjármálaeftirlitsins staðfesta það við Viðskiptablaðið. Líklegt er að þrír fundir - einn fyrir hvern banka - með fulltrúum lánardrottna verði haldnir á næstu vikum.

Mark Adams, sem vinnur að þessu hjá Deloitte, segir við breska viðskiptablaðið Financial Times að unnið sé að því að bæta samband Íslands við alþjóðlegar fjármálastofnanir. Hann segir að markmið skilanefndanna sé að hámarka eignir í þrotabúunum og því verði ekki náð fram með brunaútsölu heldur söluferli (e. work-out process).

Það er að myndast einn hópur af alþjóðlegum skuldaeigendum viðskiptabankanna þriggja, sem samanstendur af fyrrum innlánseigendum, skuldabréfaeigendum og lánardrottnum, samkvæmt heimildum Financial Times, og lögmannsstofan Bingham McCutchen leiðir hópinn.

Í frétt Finanical Times kemur fram að fulltrúar frá Fjármálaráðuneytinu hafi á undanförnum vikum hitt fulltrúa ýmissa erlendra banka með það fyrir augum að miðla upplýsingum og viðhalda góðum samskiptum.

Þrír til fjórir starfsmenn Deloitte, sem vinna fyrir skilanefnd Landsbankans, eru staddir hér á landi, samkvæmt upplýsingum frá bankanum. Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans, er hluthafi í Deloitte á Íslandi.

Seðlabanki Íslands hefur einnig ráðið sér erlendan ráðgjafa, JP Morgan, samkvæmt heimildum breska viðskiptablaðsins.