Um 900 rithöfundar hafa skrifað undir mótmælaplagg gegn framferði Amazon gagnvart bókaútgefandanum Hachette. Segja rithöfundarnir að Amazon beiti útgefandanum ósanngjörnum viðskiptaþvingunum sem felast meðal annars í því að fjarlægja bækur eftir útgefandann úr sölu á síðu vefsölurisans. Meðal rithöfunda sem rita undir plaggið eru Stephen King, Paul Auster, James Patterson og Donna Tartt en margir þeirra sem setja nafn sitt við baráttuna eru ekki á mála hjá Hachette.

Deilur Amazon við Hachette hófust þegar útgefandinn neitaði að taka þátt í því að lækka verð á rafbókum en Amazon hefur greint frá því að 15 til 20 dollarar (1.700 til 2.300 kr.) sé „óréttlætanlega“ hátt verð fyrir rafbók og að þær ættu flestar að kosta í kringum 10 dollara (1.150 kr.). Mótmælaplaggið verður að öllum líkindum birt í New York Times á morgun.