Greining Íslandsbanka segir að ládeyðu á gjaldeyrismarkaði megi hugsanlega rekja til fyrirætlana Seðlabankans um hugsanleg gjaldeyriskaup. Á síðasta stýrivaxtafundi bankans kom fram að slík kaup gætu hafist strax eftir næsta fund peningastefnunefndarinnar, sem er 18. ágúst. Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri hefur verið með lægsta móti í júlí og einungis ein viðskipti átt sér stað.

Að mati greiningarinnar er líklegt að árleg áhrif sumartímans hafi þar áhrif, en einnig gætu þar komið til fyrirætlanir Seðlabankans. Það sem af er ári hefur meðalvelta á mánuði á millibankamarkaði verið um 1,2 milljarðar króna. Til samanburðar var veltan á sama tímabili árið 2008 um 820 milljarðar króna á mánuði.