BéBé vöruhús, sem áður hét Mjöll-Frigg hf., hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og lauk skiptum 12. desember, að því er kemur fram í Lögbirtingablaðinu. Lýstar kröfur í búið námu tæplega 1,2 milljörðum króna. Þar af námu samþykktar almennar kröfur tæplega 815 milljónum króna og fékkst ekki nema 0,25% upp í almennu kröfurnar eða um 20 milljónir króna en veð- og forgangskröfur upp á liðlega 380 milljónir hafa þá væntanlega fengist að fullu greiddar.

Tekið skal fram að núverandi rekstur Mjallar-Friggjar er og hefur verið í höndum nýrra eigenda, sem komu að félaginu 2007. Heitir það fyrirtæki Mjöllfrigg hf. og hefur rekstur þess gengið vel að sögn framkvæmdastjóra félagsins. Í síðustu viku var greint frá því að Ölgerðin hefði fest kaup á 51% hlut í Mjöll-Frigg en fyrirtækið hefur þróað og framleitt hreinlætisvörur í áratugi og í raun mætti segja að það, eða hluti þess, sé komið á níræðisaldur.

Mjöll og Frigg sameinuðust í eitt fyrirtæki árið 2004 en Mjöll varð til árið 2001 við sameiningu hreinlætisvörudeildar Sjafnar á Akureyri, Sáms í Kópavogi og Mjallar í Reykjavík, en þessi fyrirtæki voru öll rótgróin á hreinlætisvörumarkaði og eiga sér langa sögu. Sjöfn var stofnuð árið 1932, Mjöll árið 1942 og Sámur árið 1969. Sápugerðin Frigg var stofnuð árið 1929 og hefur alla tíð verið í framleiðslu, sölu og dreifingu á hreinlætisvörum á Íslandi.