Fyrrum eigendur Íslenskra Aðalverktaka (ÍAV) sögðu sig úr stjórn IP verktaka viku áður en félagið keypti verktakahluta ÍAV af Arion banka. Þeir settust síðan aftur í stjórn félagsins tæpum þremur mánuðum síðar og keyptu um leið helmingshlut í hinu nýja ÍAV á tæpar 400 milljónir króna. Sömu menn, þeir Gunnar Sverrisson og Karl Þráinsson, forstjórar ÍAV, höfðu áður þverneitað því við fjölmiðla að þeir stæðu á bakvið kaup IP verktaka á verktakahluta ÍAV.

Gerðu tilboð í nóvember

Þegar IP verktakar voru stofnaðir sumarið 2009 sátu bæði Gunnar og Karl í stjórn félagsins og voru með prókúruumboð. Í nóvember sama ár var sent erindi til Arion banka þar sem Karl, Gunnar og svissneska fyrirtækið Marti Holdings AG buðu í verktakahluta ÍAV. Tilboðinu, sem var gert í nafni IP verktaka, var hafnað vegna þess að það þótti allt of lágt.

Bæði Gunnar og Karl sögðu sig úr stjórn IP verktaka 25. febrúar 2010. Viku síðar, 4. mars, var tilkynnt að IP verktakar, nú einungis í eigu Marti Holdings AG, hefði keypt verktakahluta ÍAV af Arion banka. Kaupverðið var ekki gefið upp en heimildir Viðskiptablaðsins herma að beiðni um trúnað yfir því hefði komið frá kaupandanum, IP verktökum. Skömmu síðar sagði vefmiðillinn Pressan frá því að Gunnar og Karl stæðu að baki kaupum IP verktaka á arðbærasta hluta starfsemi ÍAV. Þeir þvertóku hins vegar fyrir það í fjölmiðlum.

Komu aftur inn í stjórnina 20. maí og keyptu helming í félaginu

Þann 20. maí síðastliðinn settust Gunnar og Karl svo aftur í stjórn IP verktaka og tóku á ný við prókúruumboði. Sama dag var haldinn hluthafafundur í félaginu þar sem félög í eigu Gunnars og Karls skráðu sig fyrir 399,5 milljónir króna hlutafjárhækkun. Eftir hana voru forstjórarnir tveir orðnir eigendur að sitt hvorum 25% hlutnum í félagi sem þeir sóru nokkrum mánuðum áður að þeir tengdust ekki. Í lok september var nafni IP verktaka síðan breytt í Íslenska aðalverktaka ehf. og hringnum þar með lokað.

Arion situr uppi með milljarðaskuldir gamla ÍAV

ÍAV-samstæðan skuldaði Arion banka um 23 milljarða króna skömmu fyrir bankahrun. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að lítið sem ekkert hafi verið greitt af lánunum og því hafi þau einnig safnað miklum vöxtum. Arion hélt eftir óarðbærum fasteignaþróunarverkefnum og skuldum ÍAV þegar verktakahlutinn var keyptur út. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins ríkir lítil gleði með snúning forstjóranna innan bankans.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .