Seðlabanki Japans tilkynnti í morgun um sína fyrstu stýrivaxtahækkun í 17 ár. Þetta markar sögulega kúvendingu í peningastefnu japanska seðlabankans, að því er segir í umfjöllun Financial Times.

Japanski seðlabankinn tilkynnti í morgun að stýrivextir verði á bilinu 0,0-0,1% en til samanburðar voru meginvextir bankans áður neikvæðir um 0,1%. Auk þess gaf bankinn það út að hann myndi ekki lengur gefa út markmið um ávöxtunarkröfu 10-ára ríkisskuldabréfa.

Átta ára tímabili neikvæðra stýrivaxta á enda

Kazuo Ueda, seðlabankastjóri Japans, sagði á blaðamannafundi í morgun að bankinn hefði ákveðið að snúa sér aftur að hefðbundinni peningastefnu með áherslu á skammtíma innlánsvexti.

Með þessari vaxtaákvörðun lýkur átta ára tímabili neikvæðra nafnvaxta japanska seðlabankans. Stýrivextir í Japan urðu neikvæðir árið 2016 en með því reyndi seðlabankinn að hvetja banka til að auka útlán og stuðla þannig að aukinni neyslu, m.a. til að draga úr líkum á efnahagssamdrætti.

Seðlabanki Japans var eini seðlabanka heims sem hélt enn í neikvæða stýrivexti fram að vaxtaákvörðuninni sem tilkynnt var í morgun.