„Það er ljóst að það leggst af ákveðin efnahagsstarfsemi í þann tíma sem verkfall varir. Þetta mun snerta öll fyrirtæki annað hvort með beinum eða óbeinum hætti,“ segir Gylfi Magnússon, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, í samtali við Fréttablaðið .

Þar greinir Gylfi frá því að boðuð verkföll geti haft gríðarlega neikvæð áhrif á landsframleiðslu. Einnig verði áhrifin mikil fyrir hið opinbera þar sem laun fólks séu að jafnaði lægri á meðan verkfall stendur yfir og það haldi að sér höndum á meðan. Því taki ríkið til sín lægri fjárhæð en áður.

„Þetta hefur augljós neikvæð áhrif á landsframleiðslu og í ljósi þess hversu stór verkalýðsfélögin eru sem boðað hafa aðgerðir verða áhrifin enn meiri,“ segir Gylfi. Verkföll sem standi yfir í stuttan tíma muni ekki hafa mikil áhrif því hægt sé að vinna upp tapið með öðrum hætti. Verði verkföllin hins vegar viðvarandi muni það hafa mikil áhrif.