*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 23. maí 2019 19:31

Gæti orðið langt í að Max fljúgi á ný

Það gæti tekið ár þar til Boeing 737 Max flugvélarnar taka á loft á ný samkvæmt bandarískum flugmálayfirvöldum.

Ritstjórn
epa

Forstöðumaður bandarískra flugmálayfirvalda FAA, Dan Elwell, segir að það gæti orðið langt í að Boeing 737 Max flugvélarnar fái að taka á loft á ný. Elwell var spurður hvort vélarnar gætu tekið á loft á ný í sumar á fundi með blaðamönnum í dag. Það gæti allt eins verið að flugvélarnar yrðu kyrrsettar í ár.

„Ef þú segðir október, þá gæti ég ekki fullyrt það, því við erum ekki búin að fara nákvæmlega yfir hver þjálfunarskilyrðin verða. Ef það þarf ár til að við öðlumst fullt traust á flugvélunum þá verður að hafa það," hefur BBC eftir Elwell. FAA á meðal annars eftir að taka ákvörðun um hvort skylda þurfi alla flugmenn í þjálfun í flughermi áður en þeir fljúgi 737 Max vélunum. 

Allar 737 Max flugvélar voru kyrrsettar í mars eftir að tvær 737 Max vélar hröpuðu með fimm mánaða millibili þar allir innanborðs létust. Icelandair á níu slíkar 737 Max flugvélar.

Boeing hefur lokið að uppfæra hugbúnað MCAS sjálfstýribúnaðarins sem talin er hafa átt þátt í flugslysunum en flugmálayfirvöld eiga eftir að fallast á að vélarnar séu nógu öruggar til að vera hleypt í háloftin á ný. Það ferli gæti tekið langan tíma enda hafa flugmálayfirvöld utan Bandaríkjanna gefið út að þau ætli að framkvæma sjálfstætt mat á öryggi vélanna. Flugmálayfirvöld frá 33 löndum funda í Texas í dag, vegna málsins.

Stikkorð: Boeing 737 Max
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is