Við gætum bætt þjóðarhag um 46 milljarða króna á ári með því að útrýma atvinnuleysinu og þá er ekki verið að tala um hin almennu jákvæðu samfélagslegu áhrif sem slíkur árangur mundi hafa í för með sér. Lausnin á efnahagsvanda Íslendinga blasir þannig við sagði Grímur Sæmundssen, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, á hádegisfundi á vegum SA í Hörpunni nú í hádeginu.

Grímur benti einnig á að stjórnvöld sem beri hag almennings fyrir brjósti hljóti að leggja megináherslu á að uppræta atvinnuleysi. Það hafi verið hornsteinn íslensks samfélags undanfarna áratugi að allir hafi vinnu. Skjótasta og besta leiðin til þess, sé að styðja atvinnulífið, með því að skapa skilyrði til að auka fjárfestingar og efla hagvöxt - bæta þannig hag fólks, fyrirtækja og um leið hag hins opinbera.

"Það munar um hvern einstakling sem fer af atvinnuleysisskrá út á vinnumarkaðinn. Af bótunum greiðir hann skatta og útsvar en greiðslur til hins opinbera frá þeim sama einstaklingi,sé hann að vinna fyrir meðallaunum á vinnumarkaði eru um tveimur komma þremur milljónum króna hærri á ári. Með því að koma fyrrgreindum ellefu þúsund einstaklingum til starfa getum við bætt hag ríkis og sveitarfélaga um 26 milljarða króna á ári. Þess utan þarf heldur ekki að greiða viðkomandi einstaklingi atvinnuleysisbætur lengur. Þær eru nú um eitt hundrað sextíu og tvö þúsund krónur á mánuði. Atvinnuleysi 11000 manna og kvenna kostar því okkur launagreiðendur rúmlega 20 milljarða króna á ári. Þessir fjármunir gætu nýst til nýsköpunar, vöruþróunar og fjárfestinga í fyrirtækjunum og til að bæta stöðu okkar á samkeppnismarkaði," sagði Grímur.