Í fyrra námu fjárfestingar hins opinbera tæpum 36 mö.kr. og jukust um tæplega 9 ma.kr. frá árinu á undan eða um 33%. Sem hlutfall af landsframleiðslu er aukningin 1,4% og á föstu verðlagi 27%. Kemur þetta fram í tölum sem Hagstofan birti í gær. "Um er að ræða mikinn vöxt og alveg úr takti við það sem æskilegt er út frá hagstjórnarlegu sjónarmiði," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar er bent á að hagkerfið er á fullri ferð, m.a. vegna stóriðjuframkvæmdanna, og mikil hætta á þenslu. Oft hefur verið á það bent að besta leiðin til að bægja þeirri hættu frá er að hið opinbera fresti framkvæmdum sínum. Með þeim hætti er búið til rými fyrir stóriðjuframkvæmdirnar og komið í veg fyrir að þær ryðji starfsemi fyrirtækja úr landi og þá sérstaklega þeirra sem helst keppa við erlend. Af tölunum má ætla að hinu opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélögum, hafi mistekist að halda í taumana í útgjöldum sínum á þessum mikilvægu tímum. Afleiðingin er hátt gengi krónunnar sem nú veldur útflutnings- og atvinnugreinum miklum vandræðum. Eftir stendur að það voru ekki réttar aðgerðir í hagstjórn að auka opinberar fjárfestingar á síðasta ári og er sú staðreynd ekki til að auka bjartsýni varðandi framhaldið.