„Ég er að undirbúa nám á framhaldsskólastigi fyrir fólk sem vinnur að mannvirkjagerð, það er jarðvinnupartinum. Svona nám hefur ekki verið í boði hér á landi en er þekkt víða erlendis, til dæmis í Noregi og Svíþjóð,“ segir Ásdís Kristinsdóttir, sem hefur tekið að sér verkefnastjórn til undirbúnings nýju námi í jarðvinnu, en Samtök iðnaðarins, Félag vinnuvélaeigenda, Tækniskólinn og mennta- og menningarmálaráðuneytið standa að stýrihóp verkefnisins.

„Við búum við nýjan veruleika í þessum efnum eins og sést á þessum gríðarlegu framkvæmdum sem eru nú í gangi í miðborg Reykjavíkur. Þú getur ímyndað þér hve erfiðleikastigið er allt annað en við framkvæmdir á nýbyggingarsvæðum úti í móa. Nú þarf í auknum mæli að gera risastóra grunna fyrir bílakjallara langt ofan í jörðina, þar sem fyrir er allt fullt af lifandi háspennustrengjum, lögnum og borgin í fullum rekstri allt í kringum þig.“

Ásdís þekkir vel til þessara mála en áður en hún stofnaði ásamt Margréti E. Ragnarsdóttur eigin ráðgjafafyrirtæki um straumlínustjórnun, Gemba, sem hún starfrækir samhliða, vann hún í 12 ár hjá OR og síðan Veitum. „Ég tileinkaði mér straumlínustjórnun hjá Veitum þar sem við nýtum þá reynslu með fjölmörgum fyrirtækjum ásamt því að kenna hana í háskólanum,“ segir Ásdís sem segir mótun jarðvinnunámsins í fullum gangi.

„Víða er vöntun á fólki með iðnmenntun, á sama tíma og reynslufólk er að eldast hratt. Við erum að meta hvaða hæfni við viljum að nemendur komi með út úr svona námi en hingað til hafa verktakar sjálfir þurft að taka á sig tímafreka þjálfun nýs starfsfólks. Við viljum að nemendurnir læri að umgangast veitukerfi, svo ekki verði tjón á þeim, en einnig að þeir læri á burð í jarðvegi og að varast hættur af hruni. Það er ýmis sérhæfing sem þarf að læra, hvernig á að grafa djúpa skurði, hvernig stutt er við jarðveg, hvernig vegir eru uppbyggðir og svo framvegis.“

Sjálf lærði Ásdís verkfræði við HÍ og fór síðan ásamt eiginmanni sínum, Svani Snæ Halldórssyni sjúkraþjálfara, í meistaranám til Nýja-Sjálands, en saman eiga þau þrjú börn, 3 og 8 ára stráka og 10 ára stelpu.

„Við kynntumst í flugbjörgunarsveitinni, en ég valdi Nýja-Sjáland því það er skemmtilegt og fjölbreytt land fyrir útivistarfólk eins og okkur. Það er hægt að fara á ströndina sama dag og farið er á skíði, en fólkið er mjög afslappað. Við fórum svo aftur fyrir nokkrum árum með öll börnin að ganga í fjörðunum syðst á eyjunum, sá yngsti var bara eins árs, en það er alveg geggjað svæði, svona eins og Hornstrandirnar okkar. Nú erum við hjónin að stefna að því að klára Landvættaþrautirnar hér á landi og fara svo í hálfan Járnkarl í þríþraut í Svíþjóð í sumar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .