Árshlutauppgjör Icelandair, sem birt var eftir lokun markaða í gær, hefur greinilega runnið ljúflega ofan í fjárfesta, því gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 3,93% það sem af er degi og velta með bréfin nam um tvöleytið í dag rúmum 1,2 milljörðum króna.

Raunávöxtun fjárfestis sem tók þátt í almennu hlutafjárútboði Icelandair Group í desember 2010, og heldur enn um hlutabréf sín, er ríflega 400% að teknu tilliti til arðgreiðslna félagsins. Virði hlutabréfa félagsins hefur meira en fimmfaldast frá útboðinu. Arðgreiðsla vegna rekstrarársins 2011 nam samtals 800 milljónum króna og arðgreiðsla vegna síðasta árs nam 1.500 milljónum.

Í útreikningum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum er þó ekki tekið tillit til greiðslu fjármagnstekjuskatts.

Í desember 2010 var ráðist í almennt hlutafjárútboð á nýjum hlutum í Icelandair Group. Útboðið var liður í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Gengi nýju hlutanna var 2,5 krónur og reyndist eftirspurnin vera um 2,7 sinnum meiri en framboð nýrra hluta. Gengi hlutabréfa Icelandair í Kauphöllinni er nú um 14,59 krónur á hlut í dag, eins og áður segir, eða um um 5,8 sinnum hærra en í útboðinu árið 2010.

Hagnaður Icelandair Group á öðrum fjórðungi ársins nam 18,5 milljónum dala, andvirði um 2,2 milljarða króna, en á sama tímabili í fyrra skilaði félagið 14,3 milljóna dala hagnaði. Hagnaður Icelandair á fyrri helmingi ársins nam hins vegar 201.000 dölum, en var 1,1 milljón dala á fyrri helmingi síðasta árs.

EBITDA hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 42,9 milljónum dala í ár, en var 28,8 milljónir dala á sama tímabili í fyrra og hagnaður fyrir skatta nam 23,3 milljónum dala í ár samanborið við 17,8 milljónir dala í fyrra. Munurinn á ársfjórðungunum er því umtalsverður.

Í upphafi árs spáði félagið því að EBITDA hagnaður ársins yrði á bilinu 115-120 milljónir dala en upphafi annars ársfjórðungs var þessi spá uppfærð í 122-127 milljónir. Núna gera stjórnendur Icelandair ráð fyrir því að EBITDA hagnaður á árinu verði á bilinu 140-145 milljónir dala.

Nánar má lesa um ávöxtun fjárfesta og um uppgjör Icelandair í síðustu tölublöðum Viðskiptablaðsins áskrifendur geta nálgast blöðin hér .