Hlutabréfaverð Icelandair hefur hækkað um meira en 3% í fyrstu viðskiptum dagsins og er nú komið í 2,0 krónur á hlut í fyrsta sinn frá því í lok apríl. Gengi félagsins hækkaði verulega eftir að eldgosið í Meradölum hófst á öðrum tímanum í gær.

Guðni Sigurðsson, sem starfar á samskiptasviði Icelandair, sagði við Markaðinn í dag að umferð á vefsíðu flugfélagsins hafi aukist verulega eftir að gosið hófst í gær. Hann sagði þó enn of snemmt að segja til um hvort aukin umferð á vefnum skili sér í fleiri bókunum. Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, sagði að bókunum hjá Play hafi fjölgað eftir að gosið hófst.

Hlutabréfaverð Icelandair hefur nú hækkað um fjórðung á einum mánuði. Flugfélagið tilkynnti fyrir tveimur vikum um að félagið hafi hagnast á öðrum ársfjórðungi í fyrsta sinn frá árinu 2017. Fyrir viku síðan nýtti stærsti hluthafinn, bandaríska fjárfestingafélagið Bain Capital, áskriftarréttindi og keypti 3,6% hlut í flugfélaginu fyrir um 2,3 milljarða króna.

Hlutabréf Play, sem er skráð á First North-markaðinn hefur einnig hækkað um 0,8% í dag, þó í lítilli veltu. Gengi félagsins hefur ekki verið hærra frá því í maí.