Icelandair skilaði 3,8 milljóna dala hagnaði, eða sem nemur 520 milljónum króna, á öðrum ársfjórðungi. Er það í fyrsta sinn sem flugfélagið skilar hagnaði á öðrum ársfjórðungi frá árinu 2017. Félagið gerir ráð fyrir góðri afkomu á þriðja ársfjórðungi og hagnaði á seinni hluta ársins

Heildartekjur Icelandair námu 42,5 milljörðu króna á fjórðungnum sem er aukning um 32,5 milljarða króna frá fyrra ári, aðallega vegna aukningar í farþegatekjum. Í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar kemur fram að hátt í eitt þúsund starfsmenn hafi verið ráðnir til starfa á fjórðungnum.

Sjóðstreymi frá rekstri nam 15,7 milljörðum króna á fjórðungnum. Icelandair segir að lausafjárstaða félagsins hafi aldrei verið sterkari og nam 61,6 milljörðum króna í lok júní.

Í skýrslu stjórnar í ársfjórðungsuppgjörinu kemur fram að markaðsverð á eldsneyti í heiminum hafi verið 1.292 dalir á tonn, eða um 124% hærra en á sama tíma í fyrra. Fyrir vikið var eldsneytiskostnaður Icelandair 35% af heildarkostnaði félagsins á öðrum ársfjórðungi samanborið við 17% á sama tíma í fyrra. Eldsneytisvarnir náðu til 25% af notkun á fjórðungnum á meðalverðinu 664 dalir á tonn. Icelandair áætlar að fjórðungur af notkuninni varði áfram varin á næstu tveimur fjórðungum en á hærra meðalverði.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að horfurnar fyrir þriðja ársfjórðung séu góðar og bókunarstaða sterk. Félagið gerir ráð fyrir að að flugáætlun á þriðja ársfjórðungi muni ná 83% af framboði félagsins á sama tíma 2019 og um 90% af framboðinu 2019 í fjórða ársfjórðungi.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

Að skila hagnaði á öðrum ársfjórðungi er stór áfangi á vegferð okkar að koma félaginu í arðbæran rekstur. Með því að nýta sveigjanleika leiðakerfisins og þá sterku innviði sem við búum yfir höfum við aukið flugframboð hratt til að mæta mikilli eftirspurn og á sama tíma náð að bæta sætanýtingu og framlegð, þrátt fyrir að eldsneytisverð hafi meira en tvöfaldast á síðastliðnum 12 mánuðum. Slíkur viðsnúningur gerist ekki af sjálfu sér heldur er árangur þrotlausrar vinnu okkar reynslumikla starfsfólks sem hefur staðið sig frábærlega í mjög krefjandi aðstæðum. Ég vil þakka starfsfólkinu okkar þennan góða árangur.

Við höfum haldið áfram að bæta við metnaðarfulla flugáætlun okkar í júlí með nýjum áfangastöðum, tíðari ferðum til okkar vinsælustu staða og fjölbreyttum brottfarartímum á degi hverjum. Líkt og flugiðnaðurinn í heild sinni höfum við staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum, eins og krefjandi aðstæðum á flugvöllum í Evrópu og Bandaríkjunum sem hefur valdið röskunum á flugi. Þá hafa brestir í aðfangakeðjum eftir faraldurinn tafið ýmis viðhaldsverkefni. Við erum hins vegar í góðri stöðu til að bregðast við slíkum röskunum þar sem öflug flugáætlun okkar og mikil tíðni gerir okkur kleift að koma farþegum hratt og örugglega á áfangastað. Þar að auki hefur starfsfólk okkar sýnt mikla útsjónarsemi og gripið til fjölbreyttra aðgerða til að lágmarka áhrif á farþega.

Horfurnar fyrir þriðja ársfjórðung eru góðar og bókunarstaða sterk. Við gerum ráð fyrir að flugáætlun okkar í þriðja ársfjórðungi muni ná 83% af framboði félagsins á sama tíma 2019 og um 90% af framboðinu 2019 í fjórða ársfjórðungi, þrátt fyrir að óvissa ríki enn í rekstrarumhverfinu. Það er ánægjulegt að sjá mikla eftirspurn eftir ferðum til Íslands og að vægi tengifarþega sé jafnframt að aukast. Þá eru horfurnar góðar fyrir frakt- og leiguflugstarfsemi okkar. Eins og við höfum séð á undanförnum árum, í gegnum faraldurinn og ekki síst í þeirri uppbyggingu sem við höfum verið í að undanförnu þá erum við með öflugt viðskiptalíkan og frábært starfsfólk, og munum halda áfram að vinna hörðum höndum að því að nýta þau tækifæri sem framundan eru fyrir félagið.”