Greiningardeild Landsbankans hefur gefið út nýtt verðmat á Mosaic Fashions og mælir með kaupum í félaginu. Það er þó ekki reiknað með kaupunum á Rubicon Retail í verðmatinu en Mosaic Fashions tilkynnti um kaupin í gær.

?Við metum virði Mosaic á 417,9 milljónir punda (57,4 milljarðar króna) sem gefur verðmatsgengið 19,8. Er þá gengið út frá 11,1% ávöxtunarkröfu og 2,0% framtíðarvexti. Lokagengi Mosaic þann 21. júní 2006 var 15,3. Miðað við 0,5% óvissubil í ávöxtunarkröfu er því mælt með að fjárfestar kaupi bréf í félaginu og yfirvogi þau í vel dreifðu eignasafni," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin metur það sem svo að kaupin á Rubicon Retail rýri ekki virði Mosaic Fashions og fljótt á litið virðast kaupin hagstæð.

?Heildarvirði (e. enterprise value) Rubicon er 353 milljónir punda (48,5 milljarðar króna) og ef af samrunanum verður mun kaupverðið verða greitt með peningum og útgáfu hlutafjár í Mosaic. EV/EBITDA Rubicon er 7,6 miðað við EBITDA síðasta fjárhagsárs og við fyrstu sýn virðist um hagstæð kaup að ræða," segir greiningardeildin.