Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra leggur fram gengislánafrumvarp sitt á Alþingi í dag. Með frumvarpinu vill ráðherra draga úr óvissu um gengistryggð fasteigna- og bílalán en Hæstiréttur dæmdi gengistryggt bílalán ólöglegt þann 16. september sl.

Frumvarpinu er ætlað að gera niðurstöðu Hæstaréttar almenna og á þann hátt að mismunandi skilmálar gengistryggðra lána ákvarði ekki lögmæti þeirra.

Viðskiptablaðið greindi frá því í þarsíðustu viku að skaðleysisyfirlýsingar frá fjármálastofnunum, sem tryggja að ekki verði beint kröfum á hendur ríkisins vegna löggjafarinnar, hafa ekki borist ráðherra.

Þá fengust þau svör frá viðskiptabönkunum þremur, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum, að málið væri til skoðunar og væri ennþá í samningaferli. Engar frekari skýringar fengust á því hvers vegna skaðleysisyfirlýsingar hafi ekki verið gefnar út.

Þegar Viðskiptablaðið spurði Árna Pál í byrjun mánaðar hvort slíkar yfirlýsingar séu ekki mikilvæg forsenda fyrir því að hægt sé að leggja fram frumvarpið sagði hann ekki telja svo vera. Hann sagðist treysta því að bankarnir axli samfélagslega ábyrgð, líkt og sumir þeirra séu þegar farnir að gera, og taki ákvarðanir á viðskiptalegum forsendum. Ekki gangi að þeir mismuni viðskiptavinum með lögsókn gagnvart einum en ekki öðrum í sambærilegum málum. Því sé nauðsynlegt að lögin verði staðfest sem allra fyrst.

Fréttastofa Rúv hefur sagt frá því að Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður margra stórra erlendra kröfuhafa, hefur sent öllum fjármálastofnunum bréf þar sem hann segist ætla að höfða mál gegn þeim fyrir hönd kröfuhafa ef bankarnir senda frá sér skaðleysisyfirlýsingar.