Wirecard fjársvikamálið heldur enn að vinda upp á sig. Nú hefur komið í ljós að starfsmenn félagsins gengu út með milljónir evra í plastpokum út úr höfuðstöðvum félagsins í München, sem samsvar nokkur hundruð milljónum króna, yfir nokkurra ára tímabil. FT greinir frá.

Þýska fjártæknifyrirtækið flaug hátt áður en upp komst um málið og var þegar mest var félagið metið á 24 milljarða evra. Félagið fór í þrot eftir að í ljós kom að 1,9 milljarða evra bókfært reiðufé félagsins var ekki til í raun og veru og að hluti af rekstri félagsins í Asíu reyndist uppskáldaður.

Úttekt á reiðufénu er talin hafi hafist árið 2012 þar sem starfsmenn gengu út úr höfuðstöðvum fyrirtækisins, oft með andvirði tuga milljóna króna í plastpokum merkt verslunarkeðjunum á borð við Aldi og Lidl. Ekki liggur fyrir hvers vegna eða hvað varð um reiðuféð samkvæmt frétt FT um málið.

Margar úttektirnar tengjast yfirmanni hjá Wirecard sem meðal annars var yfir dótturfélagi í Dubai. Talið er að aðstoðkona hans hafi farið með reiðufé í plastpoka út á flugvöll í München og afhent það ótilgreindum einstaklingum.

Hinn ónafngreindi yfirmaður á að hafa viðurkennt að hafa millifært 4,5 milljónir evra í sjóð í sinni eigu í Liechtenstein. Þá vilja yfirvöld einnig skýringar á 15 milljóna evra millifærslu sem tengist honum til félags á Antigua í Karíbahafi.

Hluti af reiðufénu á að hafa verið ætlað Christian Bauer, yfirmanni félagsins í Asíu. Hann er talin hafa skapað tugi milljarða í bókfærða veltu sem átti sér enga stoð í veruleikanum. Bauer lést skömmu eftir að upp komst um málið.

Ýmislegt fleira virðist hafa verið að í rekstri WireCard, en félagið sá um greiðslumiðlun fyrir verslanir og fyrirtæki. Eftir því sem umsvif fyrirtækisins jukust jókst eftirspurn eftir reiðufé. Félagið geymdi stóran hluta þess í peningaskáp í höfuðstöðvum þess í München. Skápurinn fylltist í að minnsta kosti eitt skipti og þá var gripið til þess ráðs að fela féð á víð og dreifum um skrifstofur félagsins samkvæmt umfjöllun FT.