Yfirskattanefnd felldi í liðinni viku úr gildi ákvörðun Skattsins um að synja félagi, sem hóf starfsemi seint á árinu 2019, um lokunarstyrk. Niðurstaða nefndarinnar gæti haft það í för með sér að Skatturinn þurfi að taka einhver mál til meðferðar að nýju.

Sem kunnugt er samþykkti Alþingi að greiddir skyldu lokunarstyrkir til fyrirtækja sem gert var að loka samkvæmt reglugerðum um sóttvarnaaðgerðir. Eitt skilyrða þess að fá slíkan styrk var að tekjur rekstraraðila hefðu numið 4.200 þúsund krónum hið minnsta á árinu.

Fyrirtækið sem um ræðir í máli þessu rak heilsulind og opnaði dyr sínar þann 1. nóvember 2019. Taldi félagið að við uppreikning á árstekjum þá væri það yfir tekjumörkunum en Skatturinn taldi að svo væri ekki. Ástæðan fyrir því var sú að félagið og Skatturinn voru ekki sammála um það hvenær rekstur hefði hafist.

Vildi Skatturinn meina að það hefði gerst við skráningu á virðisaukaskattskrá, sem átti sér stað í júlí 2019, en félagið taldi að viðmiðunin ætti að vera skráninga á launagreiðendaskrá í árslok. Að mati Skattsins þurfti einhver að undirbúa starfsemi félagsins, koma fyrir rekstrarmunum og svo framvegis. Rekstur hefði því verið hafinn með skráningu á virðisaukaskattskrá.

Félagið taldi á móti að fyrir 1. nóvember 2019 hefði félagið ekki getað veitt neina þjónustu og engin starfsemi verið hafin. Oft sé þróunar- og hugmyndavinna löngu hafin áður en fyrirtæki hefur formlega starfsemi. Túlkun Skattsins gæti enn fremur orðið til þess að mismuna rekstraraðilum. Stundum eigi aðilar félög á lager sem engin starfsemi sé í og slík félög síðan seld rekstraraðila. Einnig var bent á það að ef umrætt félag hefði verið líkamsræktarstöð, slík félög greiða ekki virðisaukaskatt af þjónustu sinni, þá hefði skráning á launagreiðendaskrá gilt. Slík mismunun gengi ekki.

Í niðurstöðu yfirskattanefndar sagði að við mat á því hvenær starfsemi teldist hafin, í skilningi lagareglna sem um lokunarstyrki gilda, yrði að miða við hvenær starfsemin, sem skylt var að skella í lás samkvæmt reglugerð, hófst. Af þeim sökum yrði að miða við það í þessu tilviki að félagið hefði hafið starfsemi 1. nóvember 2019. Krafa um greiðslu lokunarstyrks var því tekin til greina en málið sent Skattinum að nýju til ákvörðunar á upphæð hans.

Ljóst er að úrskurðurinn kynni að hafa áhrif út fyrir þetta einstaka mál, það er í þeim tilvikum sem félög höfðu nýlega hafið starfsemi áður en heimsfaraldurinn skall á og gert að loka tímabundið í kjölfarið. Viðskiptablaðið hefur ekki upplýsingar um hve stórt það sniðmengi er.