*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 5. júní 2014 17:01

Gestur nýr forstjóri Elkem á Íslandi

Gestur Pétursson verður nýr forstjóri Elkem Ísland. Fráfarandi forstjóri hefur verið ráðinn til að stýra Elkem Foundry í Asíu.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Gestur Pétursson, umhverfis- og öryggisstjóri Elkem Ísland, tekur við sem forstjóri fyrirtækisins þann 1. ágúst næstkomandi. Gestur Pétursson hefur sinnt því starfi jafnframt því að hafa verið staðgengill og náinn samstarfsmaður fráfarandi forstjóra Einars Þorsteinssonar um árabil. En Einar, sem gengt hefur starfi forstjóra Elkem Ísland sl. 6 ár, hefur verið ráðinn til að stýra starfsemi Elkem Foundry í Asíu. Elkem Foundry hefur sett stefnuna á að styrkja stöðu sína á hratt vaxandi mörkuðum í Asíu á næstu árum og er Einari ætlað að leggja sitt af mörkum til þess verkefnis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Elkem Ísland. 

Elkem A/S er einn af helstu framleiðendum kísilmálms í heiminum. Hjá félaginu starfa um 2.300 manns í verksmiðjum þess í í Evrópu, Ameríku, Afríku og Asíu. Elkem A/S er í eigu China National Bluestar, sem keypti félagið árið 2011. 

Einar Þorsteinsson sagði um breytingarnar: „Það er mikil áskorun fólgin í þessu nýja starfi og þetta tækifæri er ánægjuleg viðurkenning á þeim árangri sem náðst hefur hér á Grundartanga á undanförnum árum. Þar eiga allir starfsmenn Elkem Ísland sinn þátt. Hópurinn hefur verið afar samhentur og metnaðarfullur og það hafa verið mikil forréttindi að vinna með þessu góða fólki í mörgum krefjandi verkefnum sem tekist hefur verið á við á undanförnum árum".

Gestur Pétursson bætti við: „Við erum öll stolt af því trausti sem Einari er sýnt og óskum honum góðs gengis á nýjum vettvangi. Ég hlakka til að takast á við þetta nýja hlutverk. Hér er einvala lið sem kann vel til verka og faglegur metnaður Elkem A/S, jafnt á sviði gæðamála og umhverfissjónarmiða, er okkur öllum dagleg hvatning til dáða."