Kynnisferðir eru langstærsta rútufyrirtæki landsins en fyrirtækið hefur þurft eins og önnur að hætta nær allri starfsemi vegna veirunnar. Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir það þó hjálpa félaginu að hluti rekstrarins felst ekki í akstri með ferðamenn.

„Staðan er orðin þannig að við erum nánast hætt öllum rúturekstri. Við erum hætt að keyra flugrútuna, hætt öllum dagsferðum og öll vinna með sérhópa þannig öll þjónusta við ferðamenn liggur niðri. Það sama má segja um bílaleiguna þar sem lítið er í útleigu fyrir utan langtímaleigu og nokkra bíla í skammtímaleigu til Íslendinga.

Flestir starfsmenn hafa þurft að taka á sig skert starfshlutfall fyrir utan þá sem sinna öðrum akstri. „Okkar framlínufólk nýtist ekki nema litlu leyti en við vildum tryggja störf okkar starfsmanna og halda ráðningarsambandinu þannig að við fórum í mjög litlar uppsagnir.

Við erum hins vegar svo heppin að vera með stórt verkefni sem undirverktaki Strætó og erum að keyra rúmlega 30% af leiðakerfi þeirra  á höfuðborgarsvæðinu. Að vísu tilkynnti Strætó í síðustu viku að það myndi draga úr umfanginu en samt sem áður er þetta töluvert stór samningur. Þetta hjálpar okkur töluvert að því leyti að tekjustreymið inn í félagið hefur ekki alfarið stöðvast þannig að það er smá súrefni að koma inn. Þá vorum við einnig búin að fækka bílum um 30% áður en árið ár hófst sem hefur styrkt eiginfjárstöðuna.“

Frá því að ástandið hófst hafa Kynnisferðir líkt og önnur fyrirtæki leitað allra leiða til þess að draga úr kostnaði. Björn segir að lausafjárstaða félagsins ætti að koma félaginu í gegnum næstu mánuði en innheimta fyrir ferðir sem þegar hafi verið farnar sé aftur á móti erfið.

„Við stöndum ágætlega hvað lausafé varðar til að lifa af næstu mánuði og höfum einnig verið að vinna með okkar fjármögnunaraðilum út frá þeim úrræðum sem veittar hafa verið. Miðað við okkar áætlanir og hvernig við höfum brugðist við með því að skera niður kostnað og fara yfir allan kostnaðarstrúktúr félagsins þá munum við geta staðið tekjulítil í þónokkurn tíma.

Ef ástandið dregst á langinn er hins vegar ljóst að staðan mun þyngjast. Það má segja að með þeim úrræðum sem hafa komið frá stjórnvöldum og bönkunum þá séum við auðvitað að rúlla boltanum á undan okkur. Þessar skuldir eru ekkert að fara og með því að fá frestun á greiðslum í gegnum bankana þá kemur að skuldadögum á einhverjum tíma. Bílarnir eldast meðan þeir standa ónotaðir og þeir rýrna í verði. Það gerir það að verkum að tap hrannast upp og þetta mun hafa áhrif á eiginfjárstöðu félagsins þannig að eigið fé getur þurrkast upp á einhverjum mánuðum hvort sem það er hjá okkur eða öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Það sem hefur einnig gerst er að innkoma í ferðaþjónustu um allan heim hefur hrunið þannig að við höfum átt dálítið erfitt með að ná inn tekjum sem við eigum inni. Við höfum verið að ná inn eins miklu og við getum en það er töluvert sem er útistandandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .