Gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum voru 229.100 samanborið við 196.700 í júlí 2010 samkvæmt Hagstofu Íslands. Gistinætur erlendra gesta voru um 88% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í júlí og fjölgaði gistinóttum þeirra um 13% frá fyrra ári. Mikil aukning var á gistinóttum Íslendinga í júlí þar sem gistinætur voru ríflega 27 þúsund samanborið við 18.000 í júlí 2010 og fjölgar því um rúm 52% á milli ára.

Á höfðuborgarsvæðinu voru 135.800 gistinætur í júlí sem er 21% aukning frá fyrra ári. Á Suðurlandi voru 35.350 gistinætur júlí sem er 16% fjölgun samanborið við júlí 2010. Á Norðurlandi voru gistinætur 25.760 í júlí, jukust um 12% og á Suðurnesjum voru 9.650 gistinætur sem er 11% aukning frá júlí 2010. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru gistinætur 10.700 sem er 2% aukning milli ára. Á Austurlandi voru gistinætur í júlí svipaðar milli ára eða um 11.800.