*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 25. september 2021 16:02

Glíma kaupaukanna við Skattinn

Umræður um kaupauka í fjármálafyrirtækjum rata reglulega í umræðuna og öðru hverju koma þeir til kasta skattyfirvalda.

Jóhann Óli Eiðsson
Eyþór Árnason

Frá því að yfirvöld mátu áskriftar- og valrétti, sem starfsmenn hljóta fyrir starf sitt hjá félagi, til skattskyldra hlunninda hafa ýmsir leitast við að finna leiðir til að koma slíkum réttindum í fjármagnstekjuþrepið í stað almenns tekjuskattsþreps. Viðskiptablaðið ákvað að stikla á stóru í réttarþróuninni á þessu sviði.

Áskriftar- og valréttindi, á borð við kauprétti, gerðu fyrst vart við sig á síðasta áratug síðustu aldar. Á þeim tíma var skattalöggjöf þögul um réttindin en ákvæði um skattskyldar tekjur voru nægilega rúm til að grípa þau.

Þegar kaupréttir færðust í aukana var um aldamótin kveðið á um að meginreglan skyldi vera að mismunurinn á kaupverði og markaðsverði skyldi skattleggjast sem almennar tekjur. Frá því er undantekning sem er háð ströngum skilyrðum. Meðal annars þarf kauprétturinn að ná til allra starfsmanna, starfsmenn þurfa að halda réttinum og síðan bréfunum í ákveðinn tíma, rétturinn má ekki vera framseljanlegur og þá má hámark kaupanna vera 1.500 þúsund krónur. Hámarkið var 600 þúsund fram á þetta gjaldár en því var breytt fyrir síðustu jól.

Einn fyrsti dómurinn þar sem reyndi á kauprétti var kveðinn upp vorið 2002 en sá varðaði hlutafjárútboð Landsbankans árið 1998. Þar bauðst starfsmönnum bankans að kaupa bréf á lægra gengi en almenningi, það er 1,25 í stað 1,9, og var það niðurstaðan að þau hlunnindi bæri að skattleggja sem tekjur. Að mati skattyfirvalda og dómstóla buðust hin sérstöku kjör eingöngu vegna starfssambands við bankann og því rétt að meta það til hlunninda.

Söluréttir taka við

Þegar Skatturinn mætir og heimtar sitt vill það oft verða svo að einhverjir leita leiða til að veikum hlekk sem hægt er að nýta sér. Í þessu tilfelli fólst það í gerð söluréttarsamninga við lykilstarfsmenn. Þeir keyptu þá bréf í vinnuveitanda sínum en gerðu samtímis samkomulag við hann um að geta selt þau á fyrirfram ákveðnu gengi, auk álags vegna fjármagnskostnaðar, eftir tiltekinn tíma eða ef þeir hættu í starfi. Með því móti naut starfsmaðurinn arðstekna og mögulegrar verðhækkunar bréfanna en áhættan af mögulegu verðfalli var færð á vinnuveitandann.

Fyrsti dómurinn í slíku máli var kveðinn upp í mars 2011 en sá varðaði samninga sem gerðir höfðu verið tíu árum áður. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að umræddir samningar hefðu „um margt [falið] í sér spegilmynd slíks kaupréttarsamnings, en fram hjá því verður á hinn bóginn ekki horft að endanlega niðurstaðan eftir þessum tveimur leiðum verður í raun nánast sú sama“.

Hlunnindin sem í því fólust bar því að skattleggja sem launatekjur en tímamörk Skattsins, það er við hvaða tímapunkt bæri að miða skattstofninn, féllu ekki í kramið hjá dómstólnum og var niðurstaða stjórnvalda felld úr gildi. Rétturinn lét að vísu ekki þar við sitja þar heldur mátti finna í rökstuðningi réttarins leiðbeiningar um hvaða leiðir væru færar til að skattleggja hlunnindin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.