Eins og fjallað var um í Morgunkorni Greiningardeildar Íslandsbanka í gær þá skilaði KB banki 4,1 ma.kr. hagnaði á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og var það betri afkoma en þeir höfðu reiknað með en spá þeirra var upp á 3 milljarða kr. Á kynningarfundi hjá KB banka í morgun kom fram að afkomuhorfur séu bjartar á þessu ári. Eigið fé bankans er um 150 ma.kr. og markmið stjórnenda er sem fyrr að ná 15% ávöxtun að jafnaði sem jafngildir 22,5 ma.kr. hagnaði á þessu ári.

"Í nýlegri afkomuspá okkar fyrir árið 2005 gerum við ráð fyrir 18,5 ma.kr. hagnaði en inn í þeirri spá er ekki reiknað með ytri vexti bankans. KB banki hefur í hyggju að kaupa fyrirtæki á Norðurlöndum og/eða í Bretlandi og er fjárfestingagetan að sögn forstjóra bankans um 100 ma.kr. að því gefnu að ekki sé boðið út nýtt hlutafé. KB banki er því sem stendur yfirfjármagnaður og er CAD-hlutfallið 14,2% en markmiðið er að það sé ekki lægra en 11%. Áhrif þessa komu glögglega fram í uppgjörinu þar sem að vaxtamunur bankans jókst verulega og hreinar vaxtatekjur voru mun hærri en við spáðum. Auk áhrifa útlánaaukningar og hlutafjáraukningarinnar þá hafa fjármögnunarkjör bankans farið batnandi. Moody's hækkaði lánshæfismat KB banka í nóvember og líkur eru á frekari hækkun takist KB banka að auka hlutfall innlána á fjármögnunarhliðinni. Þá hafa kjör danska bankans FIH einnig batnað en það var ekki fyrirfram gefið mál þar sem að fyrrum eigandi og bakhjarl FIH var einnig með gott lánshæfismat," segir í Morgunkorni.

Þars egir ennfremur að stærstu kostnaðarliðir bankans jukust óvenju mikið á milli fjórðunga. Launakostnaður hækkaði um tæpan milljarð króna frá þriðja ársfjórðungi vegna fjölgunar starfsfólks og kaupaukagreiðslna en þær náu samtals um 2 mö.kr. á síðasta ári, heildarlaunakostnaður á árinu nam 12,7 mö.kr. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 890 m.kr. milli fjórðunga og skýrist einkum af kostnaði vegna hlutafjárútboðsins í október, aukinnar áherslu á markaðsmál og vegna gjaldfærslna á tölvubúnaði samstæðunnar sem verið er að innleiða. Að sögn forstjóra bankans mun annar rekstrarkostnaður færast í svipað horf á fyrsta ársfjórðungi og á þeim þriðja í fyrra. Þá segir hann þóknunartekjur af fyrirtækjaverkefnum verða ámóta góðar á fyrsta ársfjórðungi og þeim fjórða. Samantekið má því segja að uppgjörið sé gott og að horfur á þessu ári séu sömuleiðis góðar.