Auglýsingastofan Pipar\TBWA hélt sérstakan kynningarfund í Listasafni Reykjavíkur á dögunum fyrir 150 manns sem sóttu um tvær stöður í netmarkaðsmálum hjá stofunni.

Fyrirlesarar frá stofunni og tilvonandi kennarar héldu tölu á kynningarfundinum en auk þeirra töluðu Eva Björk Guðmundsdóttir, sölustjóri Meniga, og Vignir Már Lýðsson, framkvæmdastjóri Spoton.

„Umsvif verkefna hjá okkur hafa aukist mikið síðastliðið ár og nú er svo komið að við þurfum nauðsynlega á að halda manneskju sem er sérhæfð í PPC (Pay Per Click) auglýsingabirtingum og mælingum á árangri auglýsinga á netinu,“ segir Kristín Elfa Ragnarsdóttir, samfélagsstjóri PIPAR/TBWA. „Við höfum áður auglýst stöðu sérfræðings í þeim efnum en ekki ekki fengið fólk sem stenst kröfurnar og því fannst okkur tilvalið að ráða inn nema sem einfaldlega læra þessa hluti út og inn með aðstoð sérfræðinga okkar hér á stofunni.“

Kristín segir að vöktun á samfélagsmiðlum, leikjum, skráningum o.fl. sé allt orðinn veigamikill hlekkur í nær öllu markaðsstarfi enda mikilvægt að vera sýnilegur á þessu miðlum. ,,Góð Facebook-síða er í dag ekki síður mikilvæg en góð vefsíða, ef ekki mikilvægari og því höfum við lagt gríðarlega áherslu á að byggja upp þennan hluta markaðssetningarinnar. Við erum m.a. farin að bjóða upp á öpp sem virka bæði í símum og spjaldtölvum en það er alveg nýtt og hefur ekki verið í boði áður,“ segir Kristín.

Nemarnir tveir sem ráðnir verða á stofuna munu ekki eingöngu læra þar heldur munu þeir einnig fara til Írlands í nám í markaðssetningu á netinu. Írland er mekka samfélagsmiðlanna í Evrópu enda höfuðstöðvar þeirra flestra staðsettar í Dublin, s.s. Facebook, Google og Linkedin svo dæmi séu tekin. ,,Í tilefni þess að við vorum að leita að nýju blóði þá fengum við Blóðbankann til að koma og vera með kynningu þar sem hann auglýsti eftir blóðgjöfum í leiðinni. Við erum ekki í vafa um að það muni hjálpa okkur að fá gæðablóð inn í fyrirtækið,“ segir Kristín.