*

laugardagur, 26. september 2020
Erlent 21. janúar 2020 19:07

Google breytir upplýsingasöfnun Chrome

Leitarvélarisinn hefur náð 63% markaðshlutdeild með vafranum sínum en segist nú bregðast við persónuverndarkröfum.

Ritstjórn
Google fyrirtækið er með starfstöðvar víða um heim.
epa

Google hefur tilkynnt um breytingar á því hvernig félagið meðhöndlar svokallaðar vefkökur, eða cookies, sem eru lykillinn í því að fyrirtæki geti beint að notendum auglýsingum eða öðrum sérsniðnum upplýsingum miðað við fyrri netnotkun.

Segir félagið, hvers móðurfélag, Alphabet fór yfir 1 þúsund milljarða Bandaríkjadala virði nýlega, jafnframt að það hyggist á endanum hætta að styðja við vefkökur frá öðrum aðilum á Chrome vafra sínum. Ákvörðunin nú er sögð stórt skref frá þeirri víðtæku upplýsingasöfnun um notendur sem félagið hefur löngum staðið í.

Félagið er sagt hafa í umfjöllun um málið ítrekað vísað til persónuverndar sem Bloomberg fréttastofan segir vandræðalegt fyrir fyrirtæki sem hafi byggt viðskiptalíkan sitt á því að safna vefkökuupplýsingum um notendur sína sem telja milljarða.

En félagið virðist ætla að reyna, nú þegar aðrir vefvafrar eru að bjóða upp á meiri persónuvernd til að auka vinsældir sínar meðal notenda. Þannig býður Microsoft Edge upp á að koma í veg fyrir að hægt sé að sækja upplýsingar um notendurna og Mozilla hefur löngum nýtt persónuvernd sem aðalsölupunktinn fyrir Firefox vefvafra sinn.

Vafrinn náð miklum vinsældum á 12 árum

Síðan Chrome var hleypt af stokkunum árið 2008 hefur vafrinn orðið mjög vinsæll og náð um 63% markaðshlutdeild í heiminum, en sölupunktur Google fyrir hann var hve vel hann tengdist öðrum lausnum félagsins eins og til dæmis gmail tölvupóstinum og youtube.

Vafrinn hefur jafnframt orðið mikilvirk upplýsingaveita fyrir félagið sem tryggt hefur auglýsingaveitum félagsins leið til að beina auglýsingum enn betur að áhugasviði notendanna.

Mikil notkun á vafranum hefur þó aukið á áhyggjur um netöryggi og persónuvernd, en í tilraun sem gerð var á síðasta ári komu 11.189 beiðnir um vefkökuupplýsingar á einni notkunarviku með vafrann.

Justin Schuh framkvæmdastjóri fyrir vefhönnun hjá Google segir félagið þurfa að aðlagast breyttum kröfum notenda, þar á meðal meira gegnsæi, vali og stjórn á því hvernig upplýsingar um þá séu notaðar.