Gögn úr dómsmáli Oracle gegn Google hafa sýnt fram á að leitarvélarrisinn hefur greitt hátt í milljarð bandaríkjadala, eða um 130 milljarða íslenskra króna, til að fá að vera aðalleitarvélin í iOS-stýrikerfi Apple. Bloomberg segir frá þessu.

Það er ljóst að mikilvægt er fyrir Google að fá að viðhalda stöðu sinni sem leitarvél iPhone-símans. Leitarvélin hefur samið við Apple um að einhver prósenta hagnaðarins af leitum sem gerðar eru á iPhone snjallsímum renni til framleiðandans, en óvíst er hversu mikið það er nákvæmlega.

Í dómsmálinu sagði lögfræðingur Oracle að prósentan næði allt að 34% hagnaðarins, en ekki er víst af afriti dómsferlisins hvort  átt er við að Apple héldi eftir þessum 34% eða Google héldi þeim eftir. Lögfræðingur Google óskaði þá eftir því að tölunni yrði eytt úr uppskrift ritara dómsins, en beiðninni var hafnað á forsendu þess að talan hefði í raun og reynd verið ágiskun.