Bandaríski tæknirisinn Google hefur gefið íslenska sprotafyrirtækinu MURE VR vilyrði fyrir samstarfi um prófanir á hugbúnaði fyrir Oculus Rift sýndarveruleikatæknina. Fyrirtækið vinnur að gert hugbúnaðar sem skapar eins konar vinnustöð í sýndarveruleika, en Oculus Rift er tæki sem hefur verið í þróun um nokkurt skeið og þykir bjóða upp á mjög fullkomna sýndarveruleikaupplifun. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Diðrik Steinsson, einn stofnenda fyrirtækisins, segir í samtali við Morgunblaðið að samstarfið við Google sé afrakstur ráðstefnu sem hann sótti í Bandaríkjunum. Þangað hafi verið boðið fulltrúum þeirra fyrirtækja sem þrói hugbúnað fyrir Oculus Rift. „Átti ég þar fund með fulltrúum frá Google, nánar tiltekið frá þeirri deild fyrirtækisins sem ber ábyrgð á að skapa starfsmönnum sem besta vinnuaðstöðu.“

Diðrik segir jafnframt að samstarfið muni fela í sér að tækni MURE VR verði reynd á starfsliði Google. „Google mun nálgast þessar prófanir á ítarlegan og vísindalegan hátt og gefa okkur mjög verðmæta endurgjöf. Um leið mun nafn Google vafalítið greiða lausninni okkar leið inn í fleiri fyrirtæki, ef vel tekst til,“ segir Diðrik.