Google hefur samþykkt að greiða sekt upp á 270 milljónir Bandaríkjadollara, eða um 32,7 milljarða króna, vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu í netauglýsingum. Wall Street Journal greinir frá.

Jafnframt hefur Google samþykkt ýmsar tillögur samkeppnisyfirvalda sem að meðal annars gera samkeppnisaðilum auðveldara að nota auglýsingakerfi Google. Þrátt fyrir að tillögurnar séu eingöngu bindandi í Frakklandi er talið að félagið gæti farið svipaða leið í samskonar málum sem hafa verið höfðuð gegn fyrirtækinu víðs vegar um heim.

Frönsk samkeppnisyfirvöld höfðu til rannsóknar markaðsráðandi stöðu Google við miðlun netauglýsinga en félagið býður upp á þjónustu við kaup og sölu á auglýsingum á netinu. Samkeppnisyfirvöld fullyrtu að félagið hafi misnotað auglýsingakerfi sitt, sem að flest fyrirtæki sem auglýsa á netinu nota, til þess að gefa sinni eigin auglýsingaþjónustu samkeppnisforskot.