*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 23. maí 2018 12:06

Grand hótel metið á 9,5 milljarða

Hagnaður hótelkeðjunnar dróst saman um tæplega 60% á síðasta ári en eignir félagsins hækkuðu í endurmati vegna IFRS.

Ritstjórn
Grand hótel er stærsta einstaka eign Íslandshótela.
Haraldur Guðjónsson

Bókfært heildarvirði allra fasteigna Íslandshótela nemur rétt rúmlega 33 milljörðum króna. Fasteignamat eignanna er þó ekki nema 11,5 milljarðar. Þar af er Grand hótel við Sigtún 28 langverðmætasta eignin, eða andvirði 9.456 milljóna króna bókfært. Fasteignamatið er 4.236 milljónir króna.

Þetta kemur fram í ársreikningi Íslandshótela en félagið skilaði nú í fyrsta sinn samstæðureikningi í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðlana IFRS. Í leiðinni voru eignir félagsins endurmetnar þannig að 13 af tekjuberandi fasteignum samstæðunnar voru vanmetnar um tæpa 2,5 milljarða en þrjár ofmetnar um tæpan hálfan milljarð.

Hagnaðurinn um 400 milljónir

Íslandshótel skiluðu 401 milljóna króna hagnaði á síðasta ári, sem er um 57% lækkun hagnaðar á milli ára. Fór því hagnaður á hlut hjá félaginu úr 1,58 krónum í 0,68 krónur. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði nam tæplega 1,4 milljarði króna á síðasta ári, sem er lækkun frá 2,1 milljarði árið áður.

Tekjur félagsins jukust þó á sama tíma úr tæplega 9,9 milljörðum í 11,2 milljarða. Rekstrarkostnaðurinn jókst hins vegar úr 6,9 milljörðum í tæplega 8,3 milljarða.

Hjá félaginu störfuðu á árinu 775 starfsmenn m.v. heilsársstörf og námu launagreiðslurnar rétt rúmlega 4 milljörðum króna auk 753 milljóna í launatengd gjöld. Árið áður námu laun og launatengd gjöld í heildina 3,8 milljörðum, en þá voru 650 ársverk unnin hjá fyrirtækinu.

Heildareignir félagsins námu 37,8 milljörðum króna í lok síðasta árs, en um 32,9 milljörðum í lok ársins 2016. Í byrjun árs 2016 námu þær hins vegar rétt tæplega 26 milljörðum.

Félagið, sem hyggst greiða út 150 milljónir króna í arð fyrir árið, er að stærstum hluta í eigu félagsins ÓDT Ráðgjöf ehf, en það á 69,37% Það félag er í eigu Ólafs D. Torfasonar stjórnarformanns og stofnanda félagsins en hann á sjálfur beint 0,55% hlut. Næst stærsti hluturinn er í eigu S38 slhf eða 22,32%, en það félag er í eigu fjárfestingarfélaganna Kjölfestu og Eddu auk þriggja lífeyrissjóða. Loks félagið 7,77% í sjálfu sér.

Stikkorð: Íslandshótel Grand hótel IFRS