Greencore Group PLC, írskur matvælaframleiðandi sem Bakkavör Group á 10,9% hlut í gegnum skiptasamninga, hyggst niðurfæra rekstrarhagnað sinn fyrir tvö síðustu og yfirstandandi fjárhagsár.

Ástæðan er sögð falinn kostnaður í bókhaldi sem nú hefur uppgötvast. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Greencore.

Fjármálastjóri þess hluta félagsins sem sér um sölu á vatni er sagður ábyrgur fyrir gjörningnum, sem er talinn með vilja framkvæmdur. Fjármálastjórinn yfirgaf Greencore áður en upp um málið komst, en nú hafa þrír aðrir stjórnendur yfirgefið félagið.

Greencore segir rekstrarhagnað fyrir árið 2006 munu verða niðurfærðan um fjórar milljónir evra, og átta milljónir fyrir árið 2007. Áhrif á  rekstrarhagnað yfirstandandi árs eru sögð munu verða neikvæð um níu milljónir evra.

Stjórn félagsins segist þó sannfærð um að hagnaður á hlut verði í samræmi við væntingar markaðarins á árinu 2008. Greencore er stærsti samlokuframleiðandi Bretlands og um 8.000 manns starfa hjá fyrirtækinu.

Bakkavör tilkynnti um kaupin á 10,9% hlutafjár í Greencore þann 28.apríl síðastliðinn. Samkvæmt upplýsingum frá Bakkavör stendur sá eignarhlutur óbreyttur í dag.

Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, sagði í fréttatilkynningu um kaup eignarhlutarins að Greencore væri „ vel rekið félag með sterka samkeppnisstöðu í lykilvöruflokkum sínum," og að það væri talið „vel í stakk búið til að styrkja markaðsstöðu sína enn frekar í framtíðinni.”

Gengi bréfa Greencore hrapaði í írsku kauphöllinni við opnun markaða um 12%. Mest lækkaði gengið um tæp 19%, en við lokun markaða hafði það lækkað um 15%.