Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum greiði tekjuskatt á ný en slíkt hefur ekki gerst í hálfan annan áratug eða síðan árið 1992. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV, sagði á aðalfundi félagsins um helgina að uppsafnað skattalegt tap Vinnslustöðvarinnar hefði hæst numið 2,3 milljörðum króna á þessu árabili og stjórnendur félagsins hafi á þeim tíma ekki séð fram á að tapið yrði nokkurn tíma nýtanlegt.

Í frétt frá félaginu vegna fundarins kemur fram að nú er fjárhagsstaða þess hins vegar allt önnur og betri en fyrir aðeins fáeinum árum. Reiknaður tekjuskattur þess fyrir 1. ársfjórðung 2007 er 156 milljónir króna, þar af er áætlað að 145 milljónir króna komi til greiðslu á næsta ári.


Aflaverðmæti skipa Vinnslustöðvarinnar jókst í heild um 35% árið 2006. Afli nótaskipanna jókst reyndar enn meira eða um 50%. Sigurgeir Brynjar sagði að nótaskipin hefðu náð þessum framúrskrarandi árangri með svokölluðu tvíburatrolli, veiðarfæri sem án efa myndi hafa ?talsverð áhrif á hugsun í útgerð hérlendis.?


Tekjur landvinnsludeilda Vinnslustöðvarinnar jukust í heild um 1,1 milljarð króna frá fyrra ári, þar af
jukust tekjur fiskimjölsverskmiðjunnar um 965 milljónir króna eða um 147%. Tekjur síldarvinnslunnar
drógust hins vegar saman um 26%.

Aðalfundurinn samþykkti að greiða hluthöfum 30% arð.


Stjórn félagsins var endurkjörin. Í henni sitja Gunnar Felixson, formaður, Haraldur Gíslason,
varaformaður, Hjálmar Kristjánsson, Leifur Leifsson og Sigurjón Óskarsson. Varammenn eru
Guðmundur Kristjánsson og Kristín Gísladóttir.


Vinnslustöðin er eina íslenska sjávarútvegsfyrirtækið á aðallista norrænu kauphallarinnar OMX (áður Kauphallar Íslands). Eigendur meirihluta hlutafjár í félaginu hafa gert með sér samkomulag um rekstur og stjórnun þess og eru þar með orðnir yfirtökuskyldir gagnvart öðrum hluthöfum. Meirihlutaeigendur munu óska eftir því að stjórn Vinnslustöðvarinnar fari fram á að félagið verði
afskráð í kauphöllinni.