„Eftirspurn og hagvöxtur munu hjaðna verulega á komandi árum. Erlend lánsfjárkreppa, hægari hagvöxtur á heimsvísu, hátt hráefnaverð, niðurskurður aflaheimilda og mikill samdráttur í fjárfestingu í orkufrekum iðnaði eru allt þættir sem setja mark sitt á þróun íslensks efnahagslífs um þessar mundir og munu halda áfram að gera.”

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Greiningar Glitnis fyrir árin 2008-2011 sem kemur út í dag og kynnt á opnum fundi Greiningar Glitnis um efnahagsmál á Hilton Reykjavik Nordica.

Greining Glitnis segir að hratt muni draga úr innlendri eftirspurn – bæði einkaneyslu og fjárfestingu fyrirtækja og heimila. Á móti muni ör vöxtur í útflutningi leiða til þess að hagkerfið mun þróast hratt í átt að jafnvægi.

„Viðskiptahallinn mun skreppa saman og verðbólgan ætti að hjaðna á næstu mánuðum,“ segir í spánni.

Þá gerir Greining Glitnis ráð fyrir að verðbólga muni fara niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans og viðskiptahallinn hjaðna og komast í ásættanlegt hlutfall af landsframleiðslu. Samhliða muni Seðlabankinn lækka stýrivexti sína nokkuð hratt.

Fjármálakerfið hefur staðist ágjöf

„Í þolraun á erlendum fjármálamörkuðum undanfarið hefur íslenskt fjármálakerfi sýnt styrk sinn og þrek. Kerfið hefur staðist þessa ágjöf án teljanlegra áfalla,“ segir jafnframt í spánni.

„Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið, sem hafa það hlutverk að fylgjast með og varðveita fjármálastöðugleika hér á landi, segja fjármálakerfið í meginátriðum traust – eiginfjárstaða, arðsemi og lausafjárstaða bankanna er viðundandi og bankarnir standast allir álagspróf.“

Greining Glitnis reiknar með því að bankakerfið komist í gengum þessar þrengingar án teljandi erfiðleika og að lánsfjárkreppan taki að réna þegar botni bandarísks húsnæðismarkaðar er náð. Líklegt er að það verði þegar vel er liðið á næsta ár.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur og forstöðumaður Greiningar Glitnis, segist í spánni gera ráð fyrir að hagvöxtur taki vel við sér á árinu 2010 þegar efnahagsumhverfið verður hagstæðara að öllu leyti.

„Við gerum ráð fyrir að lánsfjárkreppan sé þá að líkindum liðin hjá, hagvöxtur á heimsvísu farinn að taka við sér á ný, aflaheimildir vaxandi, fjárfesting í stóriðju í sókn og þróun hrávöruverðs hagstæðari. Þetta mun hafa aukinn stöðugleika í för með sér og í honum mun felast góður grundvöllur hagvaxtar, við reiknum við með 3,6% hagvexti árið 2010 og 4,3% hagvexti árið 2011,” segir Ingólfur.