Greiningardeild Glitnis telur útboðsgengið Exista sanngjarnt en fjallað er um útboðið í Morgunkorni þeirra í dag. Exista verður skráð í Kauphöll Íslands 15. september næstkomandi.

Greining Glitnis bendir á að eignarhluti Exista í Kaupþingi banka er kjölfestuhluti í því félagi og myndi að þeirra mati, ef til þess kæmi, seljast á hærra verði en nú ríkir á markaði. Verðið er sem stendur í 836 en verðmat Greiningar hljóðar upp á 979. Sé sá verðmiði notaður fæst að Q-hlutfall Exista er sem stendur 1,18. Hins vegar ríkir óvissa um hve verðmætur eignarhluti félagsins í Símanum er og hvert verðmæti VÍS er. Rekstur VÍS hefur verið óviðunandi að mati Greiningar Glitnis en náist markmið stjórnenda um að eigin iðgjöld nái að dekka eigin tjón auk rekstrarkostnaðar þá mun arðsemi félagsins batna verulega. Síminn verður skráður á markaði undir lok næsta árs og þá mun koma í ljós hvernig fjárfestar meta þann rekstur segir í Morgunkorni.

Exista verður skráð í Kauphöll Íslands 15. september næstkomandi. Útboð á bréfum félagsins er hafið þar sem að Kaupþing banki hyggst selja 2,58-3,96% af útgefnu hlutafé í Exista. Endanlegt verð í útboðinu mun liggja á bilinu 19,5-21,5 krónur á hlut sem þýðir að heildarverð alls hlutafjár Exista nemur 211-233 mö.kr.

Í lok júní nam eigið fé Exista 143,3 mö.kr. en það hefur þó hækkað síðan þá um ca. 28-30 ma.kr. Helstu ástæður þess eru hækkun á verði hlutabréfa í Kaupþingi banka og Bakkavör auk hækkunar á skammtíma verðbréfasafni félagsins. Einnig koma til jákvæð áhrif hækkunar gengis krónunnar að undanförnu þar sem að Exista skuldar nettó á þriðja tug milljarða kr. í erlendum gjaldmiðlum. Reikna má með að eigið fé Exista sé um 170 ma.kr. sem stendur. Reiknað út frá miðgildi mögulegs útboðsgengis fæst að Innra virðið (Q-gildi) 1,3.

Greining Glitnis bendir á að Exista sé ekki verðbréfasjóður því viðskiptamódel félagsins byggir annars vegar á rekstrarfélögum (vátryggingastarfsemi og eignaleiga) með sterkt sjóðstreymi og hins vegar á fjárfestingastarfsemi (strategískar fjárfestinga og fjárfestingar í óskráðum félögum) sem ávaxtar sjóðstreymið. Til viðbótar við sjóðstreymi rekstrarfélaganna kemur svo fjármagnsmyndun í gegnum skammtímaávöxtun verðbréfa auk ávöxtunar á bótasjóðum tryggingafélaga.