Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækki stýrivexti bankans um 1 prósentustig á miðvikudaginn þegar ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands verður tilkynnt.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en fyrir vaxtaákvörðunina sem tilkynnt var 19. mars síðastliðinn fundaði nefndin 17. og 18 mars þ.e. dagana tvo fyrir tilkynninguna. Líklegt er að nefndin fundi því í dag og á morgun og taki í lok þeirra fundahalda ákvörðun sína um stýrivexti.

„Sökum þess að stoppað hefur verið í gatið á gjaldeyrishöftunum og að mesti þungi vaxtagreiðslnanna er frá reiknum við með að peningastefnunefndin sé nokkuð róleg yfir gengisþróuninni undanfarið en með afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd ættu að vera forsendur fyrir því að krónan hækki á næstunni innan fyrirkomulags gjaldeyrishafta,“ segir Greinin Íslandsbanka í Morgunkorni.

Í Morgunkorni kemur fram að frá vaxtaákvörðuninni í mars hefur verðbólgan hjaðnað en gengi krónunnar gefið eftir. Verðbólgan mældist þá 17,6% en er nú 15,2% og segir Greining Íslandsbanka lækkunina hafa verið umfram það sem búist var við.

„Framundan er enn meiri lækkun verðbólgunnar enda slakinn mikill og vaxandi í hagkerfinu. Atvinnuleysi hefur færst í aukanna frá því í mars og framleiðsluslakinn er orðinn sýnilegri. Allt þetta ætti að hvetja nefndina til að lækka vexti Seðlabankans enn frekar,“ segir í Morgunkorni.

Sjá nánar Morgunkorn Íslandsbanka.