Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda vöxtum sínum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans 2. júlí næstkomandi.

„Reiknum við einnig með því að nefndin ákveði að halda innlánsvöxtum óbreyttum en á tímum sem þessum þegar gnógt er af lausu fé í umferð eru það innlánsvextirnir sem eru mun meira ráðandi um hið peningalega aðhald en stýrivextirnir,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka en greiningardeildin segir helstu rökin fyrir spá sinni vera fjórar.

Í fyrsta lagi sé fyrirhugað að taka fyrstu skref í fleytingu  krónunnar seint á þessu ári og peningastefnunefnd bankans vilji fara með háa vexti inn í það ferli.

„Meðlimir nefndarinnar hafa lýst því yfir að það yrði afar óheppilegt og kostnaðarsamt að þurfa að hækka vexti á þeim tíma eftir að hafa lækkað þá of mikið í aðdraganda flots,“ segir í Morgunkorni.

Í öðru lagi hafi gengi krónunnar lækkað um 3,3% frá síðasta vaxtaákvörðunardegi bankans en gengisstöðugleiki sé meginmarkmið peningastefnunnar. Gengi krónunnar sé nú komið töluvert undir það sem peningastefnunefndin hafði áður talið ásættanlegt.

Í þriðja lagi hafi verðbólgan hækkuð frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi bankans. Hún hafi líka verið meiri núna á öðrum ársfjórðungi en Seðlabankinn spáði. Verðbólgan er nú 12,2% en var 11,6% við síðustu vaxtaákvörðun.

Í fjórða lagi telji Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) að  ekki sé svigrúm fyrir frekari vaxtalækkun nú.

„Peningastefnunefndin hefur margítrekað að AGS sé ráðgefandi aðili sem hún hlusti á og virðast rök sjóðsins hafa verið ofaná varðandi síðustu vaxtaákvörðun bankans. Líklegt er að nefndin muni með viðlíka hætti taka tillit til sjónarmiða sjóðsins nú,“ segir í Morgunkorni.

Greiningardeildin segir þó að ekki sé hægt að útiloka að peningastefnunefndin ákveði að lækka vexti hóflega þ.e. um 0,5 prósentur. Í Morgunkorni eru nefndar fjórar ástæður fyrir þeirri ákvörðun.

Sjá nánar í Morgunkorni.