© Aðsend mynd (AÐSEND)

Capacent hefur ráðið til sín tvo nýja starfsmenn samhliða yfirtöku á umboði IMIS á Íslandi til þess að selja og þjónusta QlikView hugbúnaðinn frá QlikTech. QlikView er hugbúnaður fyrir stjórnendaupplýsingar sem gerir notendum kleift að safna saman gögnum frá mörgum mismunandi upplýsingakerfum og skoða á einfaldan og skiljanlegan hátt.

Nýju starfsmennirnir munu sinna QlikView ráðgjöf ásamt öðrum ráðgjöfum Capacent á sviði stjórnendaupplýsinga.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Starfsmennirnir eru Grétar Árnason, sem hefur starfað á sviði viðskiptagreindar undanfarin níu ár og hefur mikla þekkingu og reynslu og þekkingu á því sviði. Síðasta hálfa árið var Grétar starfsmaður IMIS og sinnti QlikView eingöngu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Capacent. Hinn er Viktor Elvar Viktorsson, sem starfaði síðast sem sviðsstjóri rekstrarsviðs VR og hefur haft yfirumsjón með tölvukerfi VR undanfarin fimm ár. Viktor hefur verið notandi QlikView hugbúnaðarins undanfarin 2 ár sem stjórnandi hjá VR.

Capacent bendir á það í tilkynningu að um 30.000 fyrirtæki um allan heim eru að nýta sér QlikView til að varpa ljósi á lykilmælikvarða og greina gögn. Aðrir samstarfsaðilar Capacent á sviði stjórnendaupplýsinga eru IBM (Cognos) og Microsoft. Þónokkur fyrirtæki á Íslandi hafa á undanförnum árum kosið að nota QlikView, meðal þeirra eru: Reykjavíkurborg, Bláa Lónið, Nova, VR og Samskip.