Neytendasamtökin birta á vef sínum í dag ábendingu sem samtökin fengu og telja vert er að koma á framfæri.

Á vef samtakanna kemur fram að í verslunum 10-11 eru seldir litlir pakkar af snýtuklútum frá Euroshopper á 69 krónur pakkinn.  Hver pakki inniheldur 10 bréf/snýtuklúta.

Í Bónus er hægt að kaupa 15 pakka saman á 159 krónur sem þýðir að hver pakki kostar 11 krónur.

Munurinn er að sögn Neytendasamtakanna tæp 530%.

Þá kemur fram að í 10-11 er einnig hægt að kaupa magnpakkningu með 15 snýtuklútapökkum sem kostar 299 krónur. Það gerir 20 krónur fyrir pakkann og segja samtökin það strax mun hagstæðara heldur en stöku pakkarnir á 69 krónur.

„Þessi verðmunur er yfirgengilegur. Það er jákvætt að seldir séu stakir pakkar í 10-11 en verðlagningin er alveg út úr kortinu. Neytendasamtökin hvetja 10-11 til að bjóða upp á staka pakka á sanngjörnu verði,“ segir á vef Neytendasamtakanna.