Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segist í samtali við vb.is ekki geta lofað að ekki verði meira fjármagn fært inn í Íbúðalánasjóð. Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að leggja sjóðnum til allt að 13 milljarða króna af fjárlögum næsta árs til að styrkja eiginfjárhlutfall hans svo það fari ekki undir 3% á byrjun næsta árs. Þá verða innheimtuferlar endurskoðaðir, áhættustýring styrkt og fullnustueignir færðar inn í sérstakt félag í eigu ríkisins. Ríkið lagði sjóðnum til 33 milljarða króna í desember árið 2010.

Guðbjartur sagðist vona að Íbúðalánasjóður verði sjálfbær á næsta ári. Á móti sagði hann engar ákvarðanir hafa verið teknar um það að draga úr ríkisábyrgð á bréfum útgefnum af sjóðnum eins og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður og formaður velferðarnefndar Alþingis, sagði í samtali við Bloomberg-fréttaveituna.