Guðfinna S. Bjarnadóttir tekur við sem formaður stjórnar Hörpu á hluthafafundi á fimmtudag í næstu viku. Hún tekur við af Helgu Jónsdóttur, sem baðst lausnar vegna starfa erlendis.

Guðfinna var fyrsti rektor Háskólans í Reykjavík og alþingismaður á árunum 2007-2009. Hún er með doktorsgráðu í atferlisfræði með áherslu á stjórnun auk BA- og MA-gráðu í sálfræði. Guðfinna hefur sinnt margvíslegum trúnaðarstörfum og setið í stjórnum fjölda fyrirtækja og verkefna hér heima og erlendis.Guðfinna er meðeigandi og stjórnandi í LC Ráðgjöf og sem ráðgjafi hefur hún þjónað fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum víða um heim.

Haft er eftir henni í tilkynningu:

„Ég hlakka mikið til að taka við stjórnarformennskunni í Hörpu enda er verkefnið verðugt. Harpa er vel heppnuð, hún hefur þegar hlotið ýmsar viðurkenningar, m.a. evrópsk verðlaun fyrir arkitektúr á sl. ári, í vikunni var hún valin meðal fallegustu tónlistarhúsa heims, hljómburður í Eldborg telst meðal þess sem best þekkist og síðast en ekki síst auðgar Harpa mannlíf og menningu. Húsið er töfrandi tónlistar- og ráðstefnuhús sem hefur sitt eigið aðdráttarafl, þar komu t.d. ríflega 35 þúsund manns um helgina og nutu margvíslegra viðburða.“