„Þetta er nýtt módel. Lykillinn í þessu skipulagi er að gera þennan eignaflokk hæfan fyrir fjárfesta,“ segir Guðjón Kjartansson, sérfræðingur hjá fyrirtækjaráðgjöf MP Banka um það hvernig bygging þriggja fjölbýlishúsa við Mánatún eru fjármögnuð. Framkvæmdin er framkvæmd þannig að félagið Mánatún slhf kaupir lóðina og fjármagnar verkið að hluta með eigin fé og lánsfé, MP Banki hefur umsjón með fjármögnun, Klasi ehf hefur umsjón með stjórn verkkaupa og verktakafyrirtækið Sveinbjörn Sigurðsson hf. byggir fjölbýlishúsin. Áætlaður kostnaður við verkið nemur á milli 7 til 8 milljarða króna.

400 þúsund kall á fermetra

Meðalstærð íbúða í fjölbýlishúsunum þremur eru 114 fermetrar og segir Guðjón þessa stærð henta markaðnum. Fyrsti áfangi húsanna verður þó með stærri íbúðunum en þeir sem á eftir koma.

Gróflega má áætla að fermetraverðið í fjölbýlishúsunum hlaupi á 350 til 400 þúsund krónum. Til viðmiðunar hleypur meðal fermetraverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu í dag 280 til 300 þúsund krónum.

Að félaginu Mánatúni koma 10 aðilar, bæði einstaklingar, tryggingafélög og fagfjárfestar. Framkvæmdastjóri Mánatúns er Halldór Eyjólfsson. Stjórnarformaður er Ingvi Jónasson og er Finnur Reyr Stefánsson í stjórn með honum. Þeir eru eigendur Klasa ehf.

Guðjón segir í samtali við vb.is verkefnið fullfjármagnað. „Vandamálið með stærri verkefni hingað til hefur verið fjárfestingargeta þeirra sem að því koma,“ segir hann og bendir á að verkefnið hafi verið í þróun síðan í fyrrahaust. Skrifað var undir samning um kaup á lóðinni við Mánatún í desember og var svo fyrsta skóflustungan tekin fyrir hádegi í dag. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdum ljúki eftir um tvö og hálft ár.