Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá um helgina hefur gull ekki verið ódýrara í fimm ár og hefur eðalmálmurinn verið seldur í miklu magni vegna yfirvofandi vaxtahækkana í Bandaríkjunum. Lækkunin virðist bara halda áfram.

Verð á gulli féll um fjögur prósent niður í 1.088 dollara á asískum markaði í dag og hefur gull ekki selst á lægra verði síðan í mars 2010.

Fjárfestar hafa verið að færa sig frekar yfir í Bandaríkjadal, sem hækkaði vegna frétta Seðlabankans um væntanlega hækkun stýrivaxta. Þykir hækkunin gefa vísbendingar um að efnahagsaðstæður í Bandaríkjunum fari batnandi.

Fjárfestar kaupa yfirleitt gull á tímum óvissu. Evan Lucas, sérfræðingur hjá IG, telur að gullverð gæti farið niður fyrir þúsund dollara fyrir árslok.