„Það var kannski táknrænt að þetta gerðist 11. september  – þeim stóra flugdegi,“ sagði Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélagsins, um gjaldþrot XL Leisure Group en Eimskipafélagið er í hárri lánsfjárábyrgð til félagsins.

Þetta kom fram á afkomufundi félagsins í morgun.

Eimskipafélagið hefur fallið um 14,4% það sem af er degi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Fram kom í tilkynningu Eimskips til Kauphallar síðastliðinn miðvikudaginn, að sterkir fjárfestar undir forystu Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar myndu kaupa kröfuna félli hún á félagið.

Fjárhæð kröfu vegna sölu XL og flugrekstrarleyfisábyrgða, sem fjárfestarnir hafa lýst sig reiðubúna að kaupa, er um 207 milljónir evra eða um 26 milljarðar íslenskra króna.

Ekki hefur verið formfest hvernig þessu láni til félagsins verður háttað. Gylfi sagði að í næstu viku verði fundað um það.

Hversu há fjárhæð fellur á Eimskipafélagið á enn eftir að koma í ljós.

Straumur hefur til dæmis tilkynnt um að hafa eignast starfsemina XL Leisure Group í Þýskalandi og Frakklandi.  Eimskipafélagið er enn í ábyrgðum varðandi þær einingar en sá hluti ábyrgðarinnar hefur ekki fallið á það.