Gylfi Þór Sigurðsson er enn eitt árið langlaunahæsti íslenski atvinnumaðurinn. Gylfi er með um 720 millljónir króna í árslaun hjá enska úrvalsdeildarliðinu Everton. Gylfi er í lykilhlutverki hjá Everton alveg eins og hjá íslenska landsliðinu og hefur átt mjög gott tímabil með bláklædda liðinu frá Bítlaborginni. Jóhann Berg Guðmundsson er nú í öðru sæti yfir launahæstu íslensku atvinnumennina en hann er með um 290 milljónir króna á ári hjá enska úrvalsdeildarliðinu Burnley þar sem hann er í lykilhlutverki þótt gengi liðsins hafi verið undir væntingum á leiktíðinni.

Birkir með 270 milljónir hjá Villa

Birkir Bjarnason er einnig mjög launahár hjá enska B-deildarliðinu Aston Villa og er með 270 milljónir í árslaun. Hann hækkaði gríðarlega í launum þegar hann gekk til liðs við Villa frá Basel í Sviss. Birkir er einn launahæsti leikmaður liðsins og raunar með ótrúlega há laun miðað við að leika ekki í efstu deild.

Aron Einar Gunnarsson hækkaði umtalsvert í launum þegar Cardiff fór upp í úrvalsdeildina. Aron er mikilvægur hlekkur hjá velska liðinu sem er í fallbaráttu í úrvalsdeildinni eins og Burnley.

Sóknarmennirnir Alfreð Finnbogason og Aron Jóhannsson eru einnig á mjög háum launum í þýsku úrvalsdeildinni. Alfreð leikur þar með Augsburg og Aron með Werder Bremen.

Fín laun í Rússlandi

Það má segja að íslenskir knattspyrnumenn hafi farið í víking til Rússlands á árinu og ekki bara á HM. Sjö íslenskir knattspyrnumenn leika nú í Rússlandi og eru allir á góðum launum þar í landi. Fjórir þeirra leika með Rostov, varnarmennirnir Ragnar Sigurðsson og Sverrir Ingi Ingason og sóknarmennirnir Björn Bergmann Sigurðsson og Viðar Örn Kjartansson sem kom frá Maccabi Tel Aviv. Hörður Már Björgvinsson og Arnór Sigurðsson leika með CSKA Moskvu og Jón Guðni Fjóluson er í liði Krasnodar.

Kolbeinn Sigþórsson er enn samningsbundinn franska liðinu Nantes sem hann gekk til liðs við árið 2015. Meiðsli hafa gert framherjanum erfitt fyrir og hann hefur aðeins leikið 30 leiki fyrir franska félagið. Kolbeinn er annar hæsti markaskorari landsliðsins frá upphafi með 22 mörk. Hann spilaði með varaliði Nantes á þessu ári og æfði með landsliði Íslands. Kolbeinn skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í rúm í tvö ár á móti Katar í nóvember sl.

Hannes og Kári austast í Evrópu

Hannes Þór Halldórsson markvörður gekk til liðs við Qarabag í Aserbaídsjan frá Randers í Danmörku. Hannes hækkaði umtalsvert í launum við þessi félagaskipti og hefur hann aldrei verið launahærri á ferlinum. Kári Árnason flutti sig einnig yfir mun austar í Evrópu eða til Tyrklands þar sem hann leikur með Genclerbirligi. Hann lék áður með Aberdeen og eins og Hannes nær hann að hækka í launum þótt hann sé kominn vel á fertugsaldurinn.

Framherjinn ungi, Albert Guðmundsson, samdi við AZ Alkmaar í hollensku úrvalsdeildinni og færði sig þar með um set frá PSV þar sem hann lék aðallega með unglingaliðinu. Hann fékk fá tækifæri með aðalliði PSV og ákvað því að skipta yfir til AZ Alkmaar sem hafði lengi sýnt honum áhuga. Kaupverðið var um 300 milljónir króna og skrifaði Albert undir 4 ára samning við liðið.

Rúrik tók á sig launalækkun

Rúrik Gíslason gekk til liðs við SV Sandhausen sem leikur í þýsku B-deildinni. Hann lék áður með Nurnberg í þrjú ár og þar áður FC Köbenhavn. Rúrik fékk takmarkaðan leiktíma með Nurnberg og ákvað því að færa sig um set til Sandhausen sem leikur nú sitt sjötta tímabil í B-deildinni en þangað komst félagið í fyrsta skipti árið 2013. Liðið náði sínum besta árangri í fyrra, 10. sæti, og er nú komið ofar en nokkru sinni fyrr. Félagið er frá samnefndum bæ í Badem-Württemberg skammt norður af Stuttgart. Emil Hallfreðsson flutti sig suður eftir Ítalíuskaganum og fór frá Udinese til nýliðanna Frosinone í ítölsku úrvalsdeildinni. Rúrik lækkaði eilítið í launum við félagaskiptin. Líklega vegur hann það eitthvað upp með auglýsingasamningum en hann er með langflesta fylgjendur íslensku atvinnumannanna á Instragram.

Tveir handboltamenn eru á listanum yfir 25 launahæstu atvinnumennina en það eru sem fyrr þeir Aron Pálmarsson sem leikur með Barcelona og Guðjón Valur Sigurðssson, sem leikur með Rhein-Neckar Löwen.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .