Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ lýsir yfir þungum áhyggjum af nýjustu fréttum af þróun verðbólgunnar, að því er kemur fram í frétt á vefsíðu ASÍ. Þar segir hann fyrirtækin í landinu hafa komið í bakið á launafólki og keppist nú við að hækka verð, dyggilega studd af sínum samtökum. „Atvinnulífið hefur greinilega hætt við allar hugmyndir um stöðugleika og er beinlínis að kalla eftir átökum og ólgu í næstu samningum með þessu framferði sínu“, segir forseti ASÍ.

„Hvað ætla stjórnvöld að gera? Á krónan að fá að sökkva þjóðinni aftur? Ætlar seðlabankinn að hækka vexti? Hvað á forysta ASÍ að ráðleggja aðildarfélögum sínum varðandi undirbúning kjarasamninga í vor og haust? Verðum við ekki að svara á sömu nótum? Er ekki aðferðafræðin skýr? Hér vantar tilfinnanlega meiri ábyrgð að hálfu fyrirtækjanna og forystu þeirra“, segir Gylfi Arnbjörnsson.