*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 15. maí 2017 08:55

Hækka gjöld og setja hámarkstíma

Reykjavíkurborg vill hvetja til meiri notkunar almenningssamganga en samgöngustjóri segir fjölda bílaleigubíla kalla á hærri bílastæðagjöld.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Reykjavíkurborg hefur í hyggju að hækka bílastæðagjöld að sögn forsvarsmanna til þess að bregðast við mikilli fjölgun bílaleigubíla. Dagur B. Eggertsson baðst undan viðtali vegna málsins í Morgunblaðinu en benti á Þorstein Hermannsson, samgöngustjóra borgarinnar en hann segir málið þó skammt á veg komið.

„Úrræðin sem við gætum haft væru þá að lengja gjaldskyldu fram á kvöld svo bílaleigubílar væru ekki að teppa stæði sem íbúar, eða aðrir gestir miðborgar, geta annars notað,“ segir Þorsteinn en hann segir fyrstu athuganir ekki sína að annars staðar í heiminum væru sértækum aðgerðum beint gegn bílaleigubílum.

„Það eru líka önnur tól í verkfærakistunni, eins og hækkun bílastæðagjalda og hámarkstími, sem er úrræði sem við höfum lítið beitt hér.“ Þorsteinn staðfestir þó einnig að markmiðið með breytingunum væri að hvetja til meiri notkunar almenningssamgangna.

Segir hann íbúa kvarta undan gríðarlegum fjölda bílaleigubíla „sem taki stæði frá íbúum og þjónustu,“ segir Þorsteinn. „Það eru fyrst og fremst götustæðin sem eru hvað umsetnust. Málið snýst um að það sé ekki verið að leggja þar allan daginn. Við erum að skoða 2-3 tíma hámarkstíma. Það er allt til skoðunar hjá okkur þessa mánuðina.“