Erlendir ferðamenn eru alltof margir. Allur þessi fjöldi er að svipta Íslendinga gæðum. Þeir afskræma þjóðina og Disney-væða Ísland, að sögn Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar. Þingmaðurinn gagnrýndi fyrirtæki í ferðaþjónustu harkalega í sérstökum umræðum á Alþingi um stöðu ferðaþjónustunnar. Hann sagði verð á gistingu á hóteli hafa hækkað um 12% að jafnaði síðastliðin sex ár. Það væri ekkert einsdæmi.

„Það er okurverð víða, verðlag í evrum úti á landi og ókleift fyrir Íslendinga að ferðast um landið og borða úti því þetta er verðlagt fyrir erlenda ferðamenn,“ sagði hann og mælti með því að breyta gistináttagjaldinu í verndargjald.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, var málshefjandi og varaði hann þar við áhrifunum af fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu úr 7% í 25,5%.

Þór blés á slíkar fullyrðingar og sagði hækkunina leiða til 1,9% hækkun á heildarkostnaði ferðamanna ef henni væri velt út í verðlagið. Hann benti á að ferðaþjónustan hafi að eigin frumkvæði staðið fyrir svo mikilli hækkun á þjónustu að nú væri svo komið að Íslendingar hefðu ekki lengur efni á að ferðast um eigið land.

Undir þetta tók Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann sagði .landið ekki geta tekið við óakmörkuðum fjölda ferðamanna. „Við þurfum að stjórna ferðaþjónustunni betur. Stjórnlaus ferðamennska getur spillt náttúrunni. Við verðum að dreifa ferðamönnunum betur,“ sagði hann.