*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 23. janúar 2018 17:41

Hafa fækkað starfsfólki um 25%

Síminn hefur fækkað starfsfólki hjá móðurfélaginu um fjórðung á síðustu tveimur árum.

Ritstjórn
Orri Hauksson forstjóri Símans segir að félagið hafi þurft að hagræða á sama tíma og ráðist var í miklar fjárfestingar.
Haraldur Guðjónsson

Fjarskiptafélagið Síminn er í 14. sæti yfir fyrirmyndarfélög en starfsemi og rekstur félagsins hefur tekið miklum breytingum samhliða breytingum á samskiptamynstri og tækni. Á sama tíma og fyrirtækið hefur fjárfest mikið í vöruþróun og innviðum hefur það einnig þurft að mæta áskorunum í rekstri og hagræða á kostnaðarhliðinni undanfarin ár. Til að mynda hefur starfsfólki móðurfélagsins, Símans hf., fækkað um 25% á síðustu tveimur árum.

„Við sem fjarskipta- og afþreyingarfyrirtæki þurfum að læra mjög hratt af stóru samskiptamiðlunum, Facebook og Google, að klæðskerasauma okkur utan um kúnnann. Við erum að batna í því en eigum enn langt í land með það,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

„Við fórum á markað í lok árs 2015 og árið 2016 byrjaði mjög brösuglega. Launakostnaður hækkaði meira en við höfðum gert ráð fyrir og það var aukinn þungi í verðsamkeppni, sérstaklega á farsímamarkaði. Við fórum þá að taka hraðar til í rekstrinum árið 2016 og fyrr heldur en við höfðum ráðgert. Þannig að framan af ári stóðum við frammi fyrir miklum uppsagnarkostnaði og öðrum kostnaði samhliða því að pressað var á tekjurnar. Svo rétti félagið úr kútnum þegar leið á árið 2016 og við byrjuðum árið 2017 mjög vel,“ segir Orri enn fremur en eftir að félagið skilaði ársuppgjöri í febrúar síðasta árs hækkaði það töluvert í Kauphöllinni.

Félagið kynnti jafnframt innreið sína inn í greiðslumiðlun á síðasta ári með Símanum Pay sem gerir viðskiptavinum kleift að greiða fyrir vöru og þjónustu með farsímanum. Félagið hefur þó ekki farið út í lánastarfsemi líkt og margir aðrir sem hafa verið að sækja inn á greiðslumiðlunarmarkaðinn. „Við höfum ekki verið að fara út í lánastarfsemi með Símanum Pay. Til að byrja með erum við með mjög einfalda lausn sem er bara veski inn í símanum. Þú setur kortin inn í símann og notar hann til þess að borga. Við viljum ná töluverðri útbreiðslu áður en við tökum næstu skref. Þetta er meira miðað að viðskiptasambandi okkar við smásöluaðila á Íslandi,“ segir Orri en hann útilokar ekki að Síminn fari inn á lánamarkað í framtíðinni þótt ekki séu áform um það á næstunni.

Þá hefur Síminn einnig verið að sækja fram á sviði afþreyingar meðal annars með nýrri seríu um Stellu Blómkvist sem kom inn á sjónvarp Símans síðastliðið haust en stefnan er tekin á tvær nýjar seríur á næstu tveimur árum. Enn fremur kynnti Síminn í vikunni samstarf við gagnaver Verne Global en með því er verið að endurskipuleggja hýsingarþjónustu félagsins.

Það er ljóst að Síminn er í verkefnum af margvíslegum toga en blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort og hvernig hægt sé að einbeita sér að tiltekinni kjarnastarfsemi þegar starfsemi fjarskiptafyrirtækja breytist eins hratt og raun ber vitni. Orri segir eitt mikilvægasta en um leið erfiðasta verkefni stjórnenda að segja nei við verkefnum. „Ef við ákveðum að gera allt, þá enda verkefnin á því að rekast hvert á annað og við náum engum fókus. Við höfum ákveðið að halda okkur við nokkur atriði, allt sem er svona augljós framlenging ofan á fjarskiptaþjónustuna, það mun bætast við,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.