Anna Morris, eigandi og hönnuður Mjúk Iceland, er fædd í Úkraínu en rekur þrjár verslanir í Reykjavík ásamt meðeiganda sínum og eiginmanni, Bergi Guðmundssyni. Hún býr yfir áratugalangri reynslu af sölumennsku og hönnun á þeim vörum sem hún selur.

„Ég var aðeins fjögurra ára þegar Sovétríkin hrundu en þá kom óðaverðbólga sem varð til þess að ég þurfti, ásamt móður minni og systur, að byrja að selja vörur til að geta lifað af. Móðir mín keypti vörur í úkraínsku borginni Lubny eins og teppi, hunang, hnetur og kústa sem við seldum svo í öðrum borgum og þar lærði ég bæði að telja og selja vörur.“

Fyrsta verslun Mjúk Iceland opnaði á Skólavörðustíg 8 vorið 2018 en seinna það ár bættist önnur verslun við á Laugavegi. Þriðja verslunin opnaði svo á Skólavörðustíg 36 og hefur salan í öllum þremur verslunum gengið mjög vel.

Velta Mjúk Iceland árið 2022 nam 254 milljónum króna miðað við 133 milljónir árið 2021 og segir Bergur að stór hluti sölunnar í vetur hafi komið frá bæði kínverskum ferðamönnum og frá söluaðilum innan Kína.

Nánar er fjallað um Mjúk Iceland í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllina í heild sinni hér.