Bankarnir og Íbúðalánasjóður hafa samanlagt leyst til sín 4.645 íbúðir frá ársbyrjun 2009 að því er kemur fram í svörum upplýsingafulltrúa þeirra við fyrirspurn á spyr.is . Þar af hefur Íbúðalánasjóður leyst til sín 2.642 íbúðir, Íslandsbanki 630 íbúðir, Landsbankinn 605 íbúðir, Arion banki 492 íbúðir og Drómi 276 íbúðir. MP banki hefur ekki leyst til sín neina íbúð á tímabilinu.

Óskað var eftir því að svörin yrðu sundurliðuð eftir árum og eftir því hvort eigandi íbúðarinnar hefði verið einstaklingur eða félag. Af þeim 2.003 íbúðum sem aðrir en Íbúðalánasjóður hafa leyst til sín á tímabilinu voru 1.337 íbúðir í eigu einstaklinga en 666 íbúðir í eigu félaga.

Í svari Íbúðalánasjóðs eru íbúðirnar aðeins flokkaðar með þessum hætti fyrir árið 2012 og það sem af er þessu ári. fyrir árin 2009, 2010 og 2011 er aðeins gefin upp heildarupphæðin. Frá ársbyrjun 2012 hefur Íbúðalánasjóður leyst til sín samtals 816 íbúðir og þar af voru 475 íbúðir í eigu einstaklinga.

Þegar lánastofnanirnar eru skoðaðar allar saman sést að þær voru umsvifamestar í yfirtökum á íbúðum árið 2010, þegar þær leystu samtals til sín 1.424 íbúðir. Árið 2011 leystu þær til sín 1.194 íbúðir og 1.257 íbúðir í fyrra. Það sem af er þessu ári hafa þær leyst til sín 156 íbúðir samtals.