*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 5. júlí 2019 18:06

Hafna lögbanni á „hústöku“ í Skógarhlíð

Héraðsdómur stöðvar ekki rekstur miðstöðvar fyrir farþegaflutninga við Bus hostel, og gagnrýnir málnotkun Þingvallaleiðar.

Ritstjórn
Skógarhlíð er að helmingi í eigu deiluaðila.
Þröstur Njálsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsæðinu um að hafna lögbanni á farþegaflutninga í atvinnuskyni og miðstöð fyrir hana í Skógarhlíð 10 í Reykjavík.

Félagið Þingvallaleið ehf.fór fram á að ákvörðun sýslumanns yrði hnekkt en varnaraðilar í málinu voru Bus hostel ehf., Reykjavík Sightseeing Invest ehf, Airport Direct ehf., Landleiðir ehf., og Destination Blue lagoon ehf.

Þingvallaleið ehf., sem líkt og Bus hotel ehf., er með heimilisfesti í Skógarhlíð 10, en félögin eiga sinn hvorn helmingshlutinn í fasteigninni, en Bus hotel hefur leigt ákveðinn hluta lóðarinnar til rekstur gistiskála, bílaleigu og skylds reksturs samkvæmt samkomulagi aðilanna frá árinu 2013.

Stangast á um hvort útleiga annars þurfi samþykki hins

Eru aðilar málsins óssammála um hvort útleiga annars aðilans á aðstöðunni þyrfti samþykkis hins við, en í apríl 2018 urðu eigendaskipti á Bus hotel þegar Hópbbílar hf. gerðu tilboð í félagið.

Keypti félagið Hvaleyri hf., samstæðufélag fjölda félaga í samkeppni við Þingvallaleið ehf., félagið Bus hotel í kjölfarið og fluttu þá áðurnefnd félög starfsemi sína í Skógarhlíð og komu þar upp rútustöð undir formerkinu „Reykjavík Terminal.“ Fór Þingvallaleið ehf., fram á að ákvörðun Sýslumanns yrði hnekkt og lögbann verði lagt á starfsemina í Skógarhlíðinni í Reykjavík, en því var hafnað.

Neita að biðjast afsökunar á orðalagi

Kenndi margra grasa í dómnum í röksemdarfærslum bæði sóknar- og varnaraðila í málinu, en athygli vekur að Destination blue lagoon gerir alvarlegar athugasemdir við það sem þeir kalla ósæmilegt orðalag í greinargerð sóknaraðila, þegar til varnaraðila málsins er vísað sem hústökuaðila.

Tekur dómurinn undir að sú orðanotkun lögmanns geti trauðla talist uppfylla skyldur um að sýna virðingu í riti og framkomu og það sé með öllu ónauðsynlegt.

„Þá verður í ljósi framangreinds ekki séð hvers vegna lögmaður getur ekki sinnt afsökunarbeiðni ef sýnt er að gagnaðila eða lögmanni er greinilega misboðið,“ segir í dómsorðinu, þó þar komi einnig fram að orðanotkunin sé ekki svo ósæmileg að ástæða sé að beita réttarfarssekt.